149. löggjafarþing — 25. fundur,  25. okt. 2018.

launamunur kynjanna.

[10:32]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M):

Hæstv. forseti. Ég vildi spyrja hæstv. forsætisráðherra um launamun kynjanna vegna færslu sem hæstv. dómsmálaráðherra setti á Facebook í gær, þó að ég geri ráð fyrir að forsætisráðherra hafi séð fyrir að þessi spurning kæmi fram. Þegar líður á færslu hæstv. dómsmálaráðherra segir, með leyfi forseta:

„Það er mikilvæg forsenda framfara í þeim efnum að umræða sé málefnaleg og fyrirliggjandi gögn ekki mistúlkuð.“

Maður veltir fyrir sér hvort átt sé við að þeir sem stóðu að þessari miklu hátíð í gær og þeir sem skrifa inn á kvennafri.is mistúlki gögn.

Nú spyr ég hæstv. forsætisráðherra: Er forsætisráðherra sammála þessari ályktun, að þarna hafi gögn verið mistúlkuð?

Í öðru lagi: Er hæstv. forsætisráðherra sammála því að launamunur kynjanna sé 5% að teknu tilliti til ýmissa þátta?