149. löggjafarþing — 25. fundur,  25. okt. 2018.

skýrsla milliríkjanefndar Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar (IPCC).

[11:15]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson):

Virðulegur forseti. Skýrsla milliríkjanefndar Sameinuðu þjóðanna, IPCC, um áhrif 1,5°C hlýnunar er afar mikilvæg skýrsla og hefur af mörgum verið kölluð lokaviðvörun vísindasamfélagsins um að róttækra breytinga sé þörf til að komast hjá skelfilegum afleiðingum stjórnlausrar hnattrænnar hlýnunar. Undir það tek ég heils hugar.

Rétt er að geta þess í byrjun að markmið Parísarsamningsins er að halda hlýnun á heimsvísu innan við 2°C miðað við það sem var fyrir iðnbyltingu en reyna jafnframt eftir megni að halda hlýnuninni innan við 1,5°C. Hvers vegna eru þessi mörk valin? Vísindamenn óttast að ef hlýnunin verði meiri en sem þessu nemur geti loftslagsvandinn orðið óviðráðanlegur. Það liggur t.d. fyrir að ef hlýnun verður yfir 2°C aukast líkur verulega á því að óafturkræf bráðnun Grænlandsjökuls hefjist. Áhrifin af því væru hækkun sjávarborðs um sjö metra. Ljóst er að aðeins brot af þeirri hækkun myndi valda gífurlegum búsifjum í strandbyggðum um allan heim.

Skýrsla IPCC er því þörf brýning til Íslands og allra ríkja heims um að loftslagsbreytingar af mannavöldum eru alvörumál og að tími til aðgerða er naumur. Stjórnvöld hér á landi munu taka þessi skilaboð inn í vinnu við nýja útgáfu af aðgerðaáætlun stjórnvalda sem lítur dagsins ljós á næsta ári eftir samráðsferli sem nú stendur yfir. Við tökum skýrsluna því mjög alvarlega.

Það liggur nokkuð ljóst fyrir að almennt eru markmið ríkja heims eins og þeim er lýst í yfirlýsingum ríkja á grunni Parísarsamningsins ekki nógu róttæk og metnaðarfull til að tryggja 2°C markmiðið, hvað þá 1,5°C markmiðið.

Umræða um endurskoðun markmiða á vettvangi samningsins er á dagskrá 2020 og mikilvægt er að ná sem mestri samstöðu meðal ríkja heims um aukinn metnað. Þar megum við ekki og munum ekki láta okkar eftir liggja.

Ísland getur ekki eitt og sér tryggt árangur á heimsvísu frekar en nokkurt annað eitt ríki. En okkar skylda er rík. Við höfum mörg tækifæri til að draga úr losun og auka kolefnisbindingu og getum auk þess náð öðrum markmiðum um leið, svo sem minni heilsuspillandi loftmengun og endurheimt skaddaðra vistkerfa. Að þessu er nú unnið.

Ríkisstjórnin hefur sett fram metnaðarfull markmið í loftslagsmálum. Í fyrsta lagi að fylgja Evrópuríkjum í að ná 40% samdrætti í losun árið 2030 miðað við 1990 og kolefnishlutleysi árið 2040. Í IPCC-skýrslunni er talað um að kolefnishlutleysi þurfi að nást árið 2050. Í skýrslunni er jafnframt bent á að nauðsynlegt sé að skipta jarðefnaeldsneyti út í orkukerfum heimsins fyrir endurnýjanlegar orkuauðlindir en það dugi ekki til og því þurfi stórfellt átak í að minnka magn koltvísýrings í andrúmslofti með því að fanga hann og binda. Aðgerðaáætlun okkar endurspeglar þessar áherslur.

Aðgerðirnar eru 34 talsins. Aðgerðaáætlunin tekur á öllum helstu uppsprettum losunar og möguleikum á kolefnisbindingu og með því að stórauka fjármagn til aðgerða. Það er vel þekkt á alþjóðavettvangi að hér er notuð nær eingöngu endurnýjanleg orka til rafmagnsframleiðslu og húshitunar og við höfum nú tækifæri til að vera í fararbroddi við að nota endurnýjanlega orku til samgangna og síðar í sjávarútvegi. Þannig eru metnaðarfull áform um rafvæðingu bílaflotans, uppbyggingu innviða í þá veru, að auka almenningssamgöngur o.s.frv. Þannig getum við ráðist í þriðju byltinguna í notkun endurnýjanlegrar orku. Til þess þurfum við að vinna saman.

Fá lönd hafa líka stærri tækifæri til að binda kolefni í gróðri og jarðvegi. Þar getum við aftur sýnt mikilvægt fordæmi. Það skiptir máli, ekki síst fyrir kolefnishlutleysið.

Ég vil einnig nefna að íslenskt hugvit og þekking í loftslagsvænni tækni hefur vakið athygli. Þar má nefna niðurdælingu koltvísýrings á Hellisheiði, loftslagsvæna tækni í skipum og fleira. Mikilvægt er að við eflum nýsköpun. Það verður m.a. gert með því að koma loftslagssjóði í gagnið líkt og kveðið er á um í aðgerðaáætluninni.

Í aðgerðaáætlun okkar eru settar fram sviðsmyndir um losun í öllum geirum og þessar 34 aðgerðir settar fram til þess að ná þeim sviðsmyndum. Við þurfum hins vegar nákvæmari útreikninga til að sjá hverju hver aðgerð skilar síðan. Um það erum við vissulega meðvituð og það hefur alltaf komið fram. Sú vinna tekur nú við, m.a. miðað við þær sviðsmyndir sem að ofan eru nefndar. Meginsamdrátturinn felst í því að draga úr olíunotkun í vegasamgöngum og síðar sjávarútvegi. Þar eru mestu möguleikarnir okkar og út á það gengur aðgerðaáætlun okkar að auki við það að draga síðan úr magni koltvísýrings í andrúmslofti með bindingu í jarðvegi og gróðri.