149. löggjafarþing — 25. fundur,  25. okt. 2018.

skýrsla milliríkjanefndar Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar (IPCC).

[11:28]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M):

Hæstv. forseti. Ég vil eins og aðrir þakka fyrir þessa ágætu umræðu. Ísland þarf vissulega að líta í eigin barm og Ísland þarf líka að miðla á heimsvísu því sem við kunnum og gerum hvað best. Áætlun stjórnvalda er ágæt til síns brúks, þar er þó einhvern veginn, finnst mér, verið að reyna að setja fókusinn á hlut sem er vissulega mikilvægur, en er kannski ekki sá sem mestu skiptir í því að gera betur í þessum málum. Fókusinn er settur á einkabílinn hjá ríkisstjórninni, væntanlega til að draga athyglina að einhverju ákveðnu takmarki.

Einkabíllinn mengar eða losar um 3–5% af heildinni. Þar eru settir neikvæðir hvatar af stað, kolefnisgjald og slíkt, í staðinn fyrir að fara í jákvæða hvata. Hvernig væri að verðlauna þá sem eru tilbúnir að leggja dísil- eða bensínbílnum meira en gert er í dag og búa til hvata til þess að menn skipti þessum bílum út?

Hvernig ætlar ríkisstjórnin að nálgast t.d. þá mengun sem kemur af ferðaþjónustunni? Ferðaþjónustan er líklega sú atvinnugrein sem mengar einna mest. Sjávarútvegurinn hefur gert vel, eins og fram hefur komið hefur hann brugðist ágætlega við. En við þurfum líka að spyrja okkur: Hvað getum við gert á Íslandi til að bæta um betur? Getum við framleitt meira af orku á Íslandi? Getum við hugsanlega nýtt betur auðlindir okkar? Getum við minnkað innflutning á áburði og nýtt kalkþörunga til að bera á tún? Getum við nýtt repju í miklu meira magni en við gerum í dag? Þurfum við yfirleitt að framleiða meiri orku? Þurfum við að virkja meira jarðhita og fallvötn til að búa t.d. til vetni eða auka enn þá meira rafnotkun í samgöngum svo eitthvað sé nefnt?

En við eigum líka að láta gott af okkur leiða á heimsvísu. Við eigum að sjálfsögðu að nota orkuna sem er á Íslandi til að framleiða vörur sem seldar eru á heimsvísu meira en gert er. Við eigum líka að miðla þekkingu þegar kemur að landgræðslu. Landgræðsla, t.d. í Afríku eða í þeim löndum sem berjast við mikla eyðimerkurmyndun, skilar gríðarlega miklu ef við beitum okkur. Þess vegna segi ég, hæstv. forseti, að þeim fjármunum sem við ætlum að fara að monta okkur af í UNESCO væri betur varið í að setja t.d. í eyðimerkursamninginn (Forseti hringir.) eða aðrar slíkar ráðstafanir gegn gróðurhúsaloftmengun, í stað þess að vera að monta okkur þarna.