149. löggjafarþing — 25. fundur,  25. okt. 2018.

skýrsla milliríkjanefndar Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar (IPCC).

[11:35]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Hnattrænar breytingar hafa áhrif á okkur öll. Það er ekki nóg að hugsa út frá því hvaða áhrif loftslagsbreytingar hafa á okkur sem einstaklinga heldur hvaða breytingar þær hafa fyrir allan heiminn og hvernig það hefur síðan áhrif á okkur. Það er erfitt að hugsa þannig en við verðum að gera það.

Varðandi aðgerðaáætlun stjórnvalda langar mig til að benda á augljósa galla þess plaggs eins og það er núna. Við hefðum viljað sjá tölur. Við vitum nefnilega hvert umfang skuldbindinganna er. Það er ekki nóg að vita hverjar aðgerðirnar eru heldur verðum við að vita umfangið sem verið er að reyna að ná utan um með aðgerðunum. Við þurfum að sjá markmiðin og það sem fyrst, þó að það séu ekki nákvæmar tölur um það hverju er náð með markmiðunum heldur hverju hver aðgerð þarf að ná. Þær tölur mega vera nákvæmari seinna.

Við erum að tala í megindráttum um tvenns konar skuldbindingar, annars vegar skuldbindingar varðandi Parísarsamkomulagið þar sem er gert ráð fyrir að við ætlum að halda okkur undir ákveðnu hitastigi. 2°C eða vel undir því er stóra markmiðið en ýtrustu kröfurnar eru 1,5°C. Svo er það Kyoto-bókunin sem er líka skuldbinding sem við höfum undirgengist þar sem við þurfum að draga úr útblæstri miðað við núverandi stöðu, þ.e. útblástursmarkmiðið, um 50% miðað við núverandi stöðu eða 40% miðað við 1990. Við erum sem sagt í verri stöðu núna en við vorum þegar markmiðið var sett.

Þetta er mjög erfitt því að við erum í rauninni að horfa á veru okkar á jörðinni. Langmesti tími jarðsögunnar er án mannsins og jörðin hefur enga þörf fyrir manninn, enda hefur hún enga þörf í rauninni þegar allt kemur til alls. Eftir að við verðum horfin í sögubækur alheimsins mun jörðin halda áfram að vera til, en við viljum hins vegar vera ferðalangar þar væntanlega aðeins lengur. Því miður erum við ekki að sýna það í verki. Það er dálítið merkilegt.