149. löggjafarþing — 25. fundur,  25. okt. 2018.

skýrsla milliríkjanefndar Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar (IPCC).

[11:40]
Horfa

Albertína Friðbjörg Elíasdóttir (Sf):

Herra forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Smára McCarthy fyrir umræðuna. Þó að við séum e.t.v. lítil þjóð í stóra samhenginu getum við haft mikil áhrif bæði til góðs og ills. Við Íslendingar erum á margan hátt forréttindaþjóð. Við eigum mikið magn af auðlindum, grænum, sjálfbærum auðlindum, en við erum líka neysluþjóð og gerum miklar kröfur um lífskjör sem í raun má segja að einkennist af orkusóun, orkusóun sem felst m.a. í því að fullnýta ekki þær auðlindir sem við nýtum nú þegar, orkusóun sem felst í því sem við kaupum og hendum án þess að fullnýta. Sú skýrsla sem við ræðum hér í dag er í einu orði sagt hrikaleg, ekki af því að hún sé svo illa skrifuð heldur af því að skilaboðin í henni eru hrikaleg, bara einfaldlega hræðileg.

Skýrslan er unnin í framhaldi af Parísarsamkomulaginu sem undirritað var fyrir tveimur árum og sameinuðust þar flestar þjóðir heims um það markmið að stöðva aukninguna á útblæstri gróðurhúsalofttegunda. Því miður er ljóst samkvæmt þessari skýrslu að það er heldur ólíklegt að þau markmið náist. Þá er staðreyndin einnig sú að ef við ætlum okkur að ná þessum markmiðum dugar ekki að draga úr útblæstri eða hætta honum alveg heldur verðum við jafnframt að binda koltvísýring í miklu magni og, eins og hér hefur komið fram, breyta lífsháttum okkar. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)

Herra forseti. Þetta er ekki í fyrsta skipti sem við eigum þessa umræðu. Við vitum hvað þarf að gera en til þess þarf samstillt átak, og ekki bara okkar Íslendinga heldur heimsins alls. Við Íslendingar getum hins vegar og eigum að ganga á undan með góðu fordæmi. Við þurfum að hefja aðgerðir strax. Morgundagurinn er að ná okkur. Við getum bætt nýtingu svo um munar. Við getum (Forseti hringir.) minnkað neyslu. Við getum aukið bindingu.

Herra forseti. Við getum og við verðum að gera betur. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)