149. löggjafarþing — 25. fundur,  25. okt. 2018.

skýrsla milliríkjanefndar Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar (IPCC).

[11:51]
Horfa

Smári McCarthy (P):

Herra forseti. Í máli hæstv. umhverfisráðherra kom fram hinn eiginlegi vandi. Hann vísaði m.a. í niðurdælingu á Hellisheiði sem er áætlað að geti skilað um 50–100 tonna niðurdælingu á ári við hliðina á Hellisheiðarvirkjun sem dælir út 200 tonnum á dag af koltvísýringi.

Við verðum að horfa á þetta raunsætt. Um leið og ég þakka fyrir góða umræðu legg ég áherslu á að markmiðið er að draga saman um 116.000–119.000 tonn á ári. Það er það eina sem mun hjálpa okkur. Við þurfum að ganga lengra. Það er vel þekkt að ríki sem einsetja sér að leysa gríðarlega stór vandamál og snúa tilvist ríkisins að því verkefni að leysa þau hafa ekki bara náð að leysa þau oftar en ekki heldur hafa þau oft náð að fanga mjög stórar jákvæðar hliðarverkanir í leiðinni.

Ef ríkisstjórnin myndi ekki líta á loftslagsbreytingar sem óþægilegt vesen sem þyrfti að redda, heldur tækifæri fyrir íslensku þjóðina til að skapa sér leiðandi stöðu í heiminum, gæti hagkerfið okkar notið góðs af. Þess vegna kalla ég eftir nýjum innréttingum, nýrri iðnbyltingu í þágu umhverfisins. Til þess þarf meira en milljarð á ári og það þarf meira en óljós markmið.

Ég beini því eftirfarandi til hæstv. umhverfisráðherra: Ríkisstjórnin þarf að tryggja 119.000 tonna samdrátt í losun á hverju einasta ári næstu 12 árin, að þessu ári meðtöldu. Ríkisstjórnin þarf að tryggja minnst tíföldun á fjármagni eigi þetta markmið að nást. Ríkisstjórnin þarf að setja upp einhvers konar vefsíðu sem sýnir hversu langt við erum komin í að ná markmiðum Parísarsáttmálans, rökstutt með tilvísunum í gögn.

Íslensk orku-, tækni- og nýsköpunarfyrirtæki þurfa að einsetja sér að ná þessu markmiði, ekki bara fyrir árið 2030, heldur nægilega langt á undan þeim tíma til að trúverðugleiki Íslands stóraukist á þessu sviði og að við getum ekki bara dregið úr útblæstri Íslands heldur grætt á því að hjálpa öllum heiminum. Ef við getum þetta ekki er illa farið fyrir öllum hinum löndunum.

Alþingi þarf að greiða götu þessara áætlana án þess að festast í skotgröfum hugmyndafræði. Ef við getum það ekki, (Forseti hringir.) verður lítið eftir af hugmyndafræði til þess að karpa um.

Forseti. (Forseti hringir.) Örlagastundir koma til þess að gefa fólki tækifæri til að sýna hvað í því býr. Ég vona að í okkur búi dugur til þess að leysa þetta vandamál. (Forseti hringir.) Framtíð mannkynsins er í veði. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)