149. löggjafarþing — 25. fundur,  25. okt. 2018.

aðdragandi að útgáfu starfsleyfis til kísilverksmiðju Sameinaðs sílikons hf. í Helguvík o.fl., munnleg skýrsla umhverfis- og auðlindaráðherra.

[12:22]
Horfa

Ásmundur Friðriksson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þm. Hönnu Katrínu Friðriksson fyrir skýrslubeiðnina og samflotið í því máli. Það var afar vel til fundið. Ég vil líka þakka ráðherranum fyrir framsögu hans áðan og þeim sem hér hafa talað. Þetta er auðvitað háalvarlegt mál sem hefur valdið okkur miklum vonbrigðum.

Ég vona að þær skýrslur sem hér hafa legið frammi, bæði skýrslan um aðkomu og eftirlit stjórnvalda frá Ríkisendurskoðun og skýrslan frá ráðherranum sem er til umræðu, verði okkur lærdómur, eins og hér kom fram hjá síðasta ræðumanni. Það er mikilvægast þegar upp er staðið að við drögum einhvern lærdóm af því sem þarna fór fram, eða kannski öllu heldur því sem þarna átti ekki að fara fram.

Í ljósi þeirrar stöðu sem uppi var í atvinnumálum á Suðurnesjum á sínum tíma þarf að rifja það aðeins upp. Ameríski herinn fór tiltölulega snögglega í burtu árið 2006 og hundruð starfa glötuðust á skömmum tíma, atvinnuleysi rauk upp úr öllu valdi og var, að mig minnir, mest um 15–16%. Þegar slíkt gerist á atvinnusvæði þar sem fyrir eru almennt lág laun verður mjög mikil krísa í samfélaginu. Það var auðvitað verið að reyna að bregðast við því á þeim tíma og afla nýrra atvinnutækifæra þar sem boðin yrðu vel launuð störf. Reyna átti að hífa upp meðallaunin á svæðinu og var leitað eftir því að finna vel launuð störf.

En mér finnst mjög mikilvægt að við áttum okkur á því hvernig staðan var. Þetta var áður en makríllinn synti inn í lögsöguna og áður en ferðamennirnir komu hingað í stórum stíl. Það var ekki fyrr en 2011 þegar ferðamönnum fór að fjölga úr 600.000 á ári upp í 2,4 milljónir sem er núna. Þannig að það er auðvitað mjög breytt staða á Suðurnesjum hvað það varðar, en við skulum ekki gleyma því hvernig staðan var fyrir það.

Það var aldrei vilji eins eða neins að þarna risi stóriðja sem spúði mengandi efnum yfir íbúana. Það var auðvitað aldrei hugmyndin. Upp kom sú staða að fulltrúar Sameinaðs sílikons, sem síðar varð, komu í Reykjanesbæ. Lögðu þeir fram áætlanir um framleiðslu á umhverfisvænum sólarkísli. Það fór auðvitað mjög vel í fólk, eins og kom fram í ræðu hv. þm. Oddnýjar Harðardóttur hér áðan. Þetta átti auðvitað ekki að verða mengunarvaldandi stóriðja heldur átti að framleiða sólarkísil sem síðan átti að nota til að framleiða umhverfisvæna orku. Í því ljósi þótti sá kostur nokkuð góður. Framleiðslan átti að vera mengunarlaus, en við höfum heyrt upplýsingar um hvernig það fór. Það er náttúrlega sorgin á bak við þetta allt saman og reynsla íbúanna ömurleg; áhrifin sem framleiðslan hafði á heilsufar, eins og kom fram í ræðunni áðan, þannig að sjö af hverjum tíu leituðu til læknis og fundu fyrir alls konar einkennum.

Í aðdraganda þessarar uppbyggingar gerði Keilir, miðstöð vísinda og fræða, skoðanakönnun fyrir Samband sveitarfélaga á Suðurnesjum þegar þessi uppbygging fór fram. Þá kom fram að 77% þeirra fyrirtækja sem spurð voru um uppbyggingu sílikonverksmiðjunnar í Helguvík töldu og 68% íbúa voru því sammála að það myndi hafa mjög jákvæð áhrif á atvinnulífið á Suðurnesjum að fá slíka starfsemi. Það var andinn þegar starfsemin var að fara af stað. Við megum ekki gleyma því. Hann var þannig.

Miklar væntingar voru um vel launuð störf og uppbyggingu og von um að rekstur hafnarinnar í Helguvík yrði tryggður. Forsprakki sílikonverksmiðjunnar í Helguvík fékk mörg tækifæri og aðstoð samfélagsins. Hann fékk fjárfestingarsamning og eins og hér kom fram áðan hefði kannski þurft að hyggja betur að fjárhagslegri stöðu þeirra sem að þessu stóðu þegar það ferli var í gangi. Við þurfum að draga lærdóm af því hvernig það var gert og er mikilvægt að þau mistök verði ekki endurtekin þrátt fyrir að miklar vonir geti verið bundnar við slíka uppbyggingu.

Mér finnst líka mjög mikilvægt að hér komi fram að það er alveg sama hvað við erum með sterk lög, hvað við setjum margar reglur og hvað við erum með góða ráðherra og embættismenn í þessum stofnunum, eins og sannarlega hefur komið fram að við höfum, það ná engin lög yfir sviksemi. Það ná engin lög yfir þá sem svíkja eða ljúga. Þannig er það. Það er alveg sama hvaða lög við setjum í þinginu, þeir sem hafa einbeittan brotavilja til að brjóta gera það og við náum aldrei að girða fyrir það. Það var það sem gerðist suður frá í mínum heimabæ. Það voru mikil vonbrigði. Bjartar vonir um vel launuð störf og vandaða starfsemi brugðust. Það varð milljarðatap fyrir banka og fjárfestingaraðila og fyrir sveitarfélagið okkar, sem fór verulega illa út úr þessari ömurlegu framkvæmd. Sveitarfélagið stendur uppi með stórar skuldir eftir þennan aðila og sveitarfélagið var lamað í marga mánuði vegna þessarar starfsemi og framkomu eiganda þessa félags, ekki aðeins í garð starfsmanna, heldur í garð verkalýðsfélaga og íbúa í Reykjanesbæ.

Beitt var ódýrum og ósmekklegum aðferðum við að framleiða sólarkísilinn sem átti að enda sem umhverfisvænn orkugjafi einhvers staðar á sólarströndum. Vandinn var að greiningartækin sem nema áttu mengunina greindu agnir og ryk en þau greindu ekki lykt. Það var vandamál. Ég, hálflyktarskynslaus maðurinn, fór ekki varhluta af því sem var að gerast. Það var auðvitað ömurlegur andi í samfélaginu út af þessu öllu saman. Ég held að það hafi verið vegna þess að vonbrigðin voru svo mikil. Svo hafði líka makríllinn komið og allir ferðamennirnir, það höfðu bara allir nóg að gera.

Það var aldrei vilji sveitarfélagsins og er ekki vilji sveitarfélagsins eða íbúa þess eða atvinnulífsins að byggja atvinnulíf á mengandi starfsemi sem hefur neikvæð áhrif á íbúana.

Mig langar í lok ræðu minnar, virðulegur forseti, að vitna í lokaorðin í skýrslu ráðherrans þar sem segir:

„Umhverfis- og auðlindaráðuneytið tekur undir það með Umhverfisstofnun að mál Sameinaðs sílikons hf. hafi haft mikla sérstöðu enda hefur stofnunin aldrei áður haft jafn umfangsmikið eftirlit með atvinnurekstri. Stofnunin hefur farið í fjölda eftirlitsferða og gert skýrar kröfur um úrbætur, lagt áherslu á að upplýsa almenning og stjórnvöld í samræmi við upplýsingastefnu sína, haft samráð og fengið mat sóttvarnalæknis varðandi heilsufarsáhrif, gert ítarlegar kröfur um mælingar og jafnframt staðið sjálf fyrir mælingum á mengandi efnum og beitt þvingunarúrræðum. Reynsla af eftirliti með starfseminni hefur verið nýtt við undirbúning starfsleyfa fyrir sambærilega starfsemi, m.a. með ítarlegri ákvæðum um varnir gegn lyktarmengun eins og raunin varð við útgáfu starfsleyfis kísilverksmiðju PCC við Bakka á Húsavík.

Umhverfisstofnun hefur síðastliðin ár lagt mikla áherslu á að efla þekkingu sína og færni hvað varðar útgáfu starfsleyfa og eftirlit með mengandi starfsemi. Það hefur verið gert með setningu skýrra verkferla sem eru í sífelldri endurskoðun, þátttöku í erlendu samstarfi, með endurmenntun starfsfólks og áherslu á teymisvinnu.“

Virðulegur forseti. Skýrir verkferlar, sífelld endurskoðun og endurmenntun starfsfólks er góðra gjalda verð en kemur þó aldrei í veg fyrir að ásetningur og einbeittur brotavilji nái fram að ganga. Ég vona, eins og aðrir ræðumenn hafa sagt hér, að við munum aldrei aftur lenda í slíkum hremmingum og íbúar Suðurnesja lentu í varðandi þetta verkefni.