149. löggjafarþing — 25. fundur,  25. okt. 2018.

geðheilbrigðismál og framkvæmd geðheilbrigðisáætlunar, munnleg skýrsla heilbrigðisráðherra.

[14:47]
Horfa

Halla Signý Kristjánsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hæstv. heilbrigðisráðherra Svandísi Svavarsdóttur fyrir að fara yfir stöðuna og þær áhugaverðar hugleiðingar sem ráðherra setur fram varðandi svo mikilvæg mál sem geðheilbrigðismál eru. Það er auðheyrt að ráðherrann gengur til verks fullur vilja og með uppbrettar ermar í þessum efnum og er það vel.

Stefna og aðgerðaáætlun í geðheilbrigðismálum var samþykkt árið 2016 til fjögurra ára en meginmarkmið hennar er, með leyfi forseta:

„Aukin vellíðan og betri geðheilsa landsmanna og virkari samfélagsþátttaka einstaklinga sem glíma við geðraskanir til skemmri eða lengri tíma óháð búsetu þeirra.“

Horft verði til samþættingar á þjónustu og áhersla lögð á að koma í veg fyrir mismunun á grundvelli geðheilsu auk þess sem uppeldisskilyrði barna stuðli að vellíðan þeirra.

Í heild sinni er samþykkt stefna í geðheilbrigðismálum góð og gild en svo er annað mál hvernig okkur tekst að halda þræðinum og hvernig við spinnum hann áfram. Forvarnir eru til alls fyrst, fræðsla og upplýsingar. Því er mikilvægt að leggja áherslu á grunninn og þá skiptir samstarf ríkis og sveitarfélaga í geðheilbrigðismálum miklu máli. Sveitarfélögin hafa með bæði leikskóla og grunnskóla að gera.

Grunnur að góðri geðheilsu er lagður í gegnum skóla, frístundir og íþróttir. Snemmtæk íhlutun og heildstæð úrræði skipta máli um leið og erfiðleikanna verður vart. Heilsuefling í skólum þarf að fara fram með heildrænum hætti, en hún byggir undir alla þætti í framtíðarheimi einstaklingsins. Skimun fyrir áhættuþáttum hjá börnum, svo sem kvíða, þunglyndi og/eða áhrifum áfalla meðal barna, er þáttur í forvörnum. Þannig er hægt að veita viðeigandi stuðning og fræðslu ef viðkomandi einstaklingur telst í áhættuhópi.

En það er ekki allt unnið í gegnum skólann heldur þarf að hlúa vel að fjölskyldunni, styðja foreldra í uppeldishlutverkinu. Það hefur góð áhrif á samfélagið allt. Geðlæknar, kennarar og sálfræðingar hafa lagt áherslu á að hægja þurfi á þjóðfélaginu, lifa í hægara tempói, staldra við og njóta. Okkur er svo gjarnt að setja undir okkur hausinn og æða áfram. Þjóðfélag í mildara takti skapar betri núvitund og rými fyrir athygli okkar hvert á öðru. Leiðin til þess er til að mynda að stefna að lengingu fæðingarorlofs í 12 mánuði og sveigjanlegri vinnutíma eða styttingu hans. Það færir okkur nær fjölskylduvænu samfélagi.

Virðulegi forseti. Þegar talað er um skipulagða heilbrigðisþjónustu er átt við að allir landsmenn eigi kost á góðri þjónustu á hverjum tíma óháð búsetu. Það á við um alla heilbrigðisþjónustu, hvort sem það snýr að andlegu, líkamlegu eða félagslegu heilbrigði. Það verður líka að raungerast að þjónustan sé veitt á viðeigandi þjónustustigi.

Í nýsamþykktri byggðaáætlun er gert ráð fyrir að náið samráð sé milli ráðuneyta og stofnana ríkisins og sveitarfélaga við framkvæmd byggðastefnu til að tryggja samhæfingu og áætlanagerð hins opinbera. Í því sambandi er talað um að gera þjónustukort sem sýni aðgengi landsmanna að opinberri þjónustu. Þar verður til gagnagrunnur til að nýta til frekari stefnumörkunar og þar verður líka hægt að sjá hvar skórinn kreppir í heilbrigðisþjónustu. Íbúar landsins, hvar sem þeir búa, eiga að hafa aðgang að þverfaglegu teymi heilbrigðis- og félagsþjónustu.

Núverandi stjórnvöld hafa lagt áherslu á dreifða þjónustu. Geðheilsuteymum á höfuðborgarsvæðinu hefur verið fjölgað og komið á fót nýjum teymum á landsbyggðinni. Þetta er góður grunnur að samþættri geðheilbrigðisáætlun um landið og mikilvægt að haldið verði áfram á þessari braut. Markmið með geðheilsuteymum vítt og breitt um landið er að færa þjónustuna nær fólkinu með því að virkja heilsugæslustöðvar sem fyrsta þjónustuáfanga fólks með geðheilbrigðisvanda í því samfélagi sem þjónustuþeginn lifir í. Teymið er með yfirsýn yfir þjónustuna sem er í boði og stuðlar að því að hún nýtist sem best og sér um öll samskipti við aðrar stofnanir, fagaðila og meðferðarúrræði er varða geðheilbrigðismál.

Með þessu er líka verið að taka á fordómum bæði innan samfélagsins og heilbrigðisgeirans sem er mjög mikilvægt líka. Þetta er til þess fallið að auka getu heilsugæslunnar til að takast á við flóknari geðræna sjúkdóma. Það er ánægjulegt að sjá að stefnt er á að komið verði geðheilsuteymi í öllum landshlutum á árinu 2020. Það er einnig ánægjulegt að sjá að markmiðið er líka að horfa til þjónustu ólíkra hópa og koma til móts við þá, eins og t.d. heyrnarlausa og heyrnarskertra og aðgang þeirra að túlkaþjónustu. Þetta þarf líka að vera til staðar fyrir aðra hópa, það þarf að snerta alla þjóðfélagshópa, t.d. aðra fatlaða einstaklinga, útlendinga og aðra. Allir eiga að geta horft til þess að heilsugæslustöðin verði þeirra fyrsti viðkomustaður ef á brýtur.

Gert er ráð fyrir að starfshópur kanni hvort farþjónusta geti nýst til að veita fólki meðferð vegna geðraskana. Þarna er verið að koma til móts við fólk í hinum dreifðu byggðum og tryggja aðgang allra landsmanna að geðheilbrigðisþjónustu. Fjarskiptaþjónustu er verið að nota víða. Má nefna stuðningsþjónustu í skólum eins og talkennslu og túlkaþjónustu, einnig sálfræðiþjónustu við nemendur. Hefur þetta gefist vel víða um landið. Fjarþjónusta á einnig við um almenna heilbrigðisþjónustu og er mikilvægt að þróa þessa aðferð áfram með opnum huga. Hana þarf auðvitað að veita með öruggum hætti ásamt því að skoða ýmsar leiðir til að nýta þjónustuna jafnt um allt land. Þrátt fyrir að slík þjónusta komi aldrei að fullu í staðinn fyrir samtal augliti til auglitis opnar þetta á jafnrétti og í einhverjum tilfellum er kannski auðveldara að nálgast vandann með slíkum hætti en að sækja þjónustuna um langan veg.

Virðulegi forseti. Það er víða pottur brotinn í geðheilbrigðismálum. Það vantar langtímaúrræði. Það er mikilvægt að hlutirnir séu hugsaðir heildrænt til að hjálpa fólki með tvíþættan vanda. Langtímaúrræði fyrir fólk með geðrænan vanda vantar. Margir hafa ræktað með sér geðsjúkdóma í gegnum fíkn og hafa ekki fengið geðgreiningu og viðeigandi úrræði til að komast á betri stað. Það er engin nýlunda að einstaklingur með tvíþættan vanda sé vistaður í fangageymslu. Það eru líka dæmi um að einstaklingar hafi orðið vímuefnum að bráð og lendi alls staðar á milli í kerfinu. Við erum ekki bara að tala um ungt fólk og aðstandendur þess heldur líka fullorðna einstaklinga sem koma að luktum dyrum í kerfinu.

Geðrænir kvillar fara ekki í manngreinarálit og oft fylgja þeir fólki lífið út. Það vantar búsetuúrræði fyrir þá sem nota fíkniefni. Það er ekkert búsetuúrræði fyrir konur í þessum vanda. Það eru konur á götunni sem eru tvígreindar og eiga fjölda meðferða að baki sem ekki hafa skilað þeim til fullrar samfélagsþátttöku. Margt kemur til greina. Eitt það mikilvægasta sem stendur fólki næst er heimilið, en oft er bara eitt sem bíður eftir meðferð og það er gatan. Meðferðin skilar ekki árangri nema einstaklingurinn sjái tilgang í að snúa aftur heim og hefja endurhæfingu í öruggu athvarfi.

Það vantar úrræði fyrir þessar konur. Það eru til úrræði fyrir karla, en það þarf að gera meira. Í Konukoti, neyðarúrræði í búsetu, eru konur sem hafa búið þar jafnvel árum saman. Það er bara úrræði til skamms tíma og ekki til þess fallið að þær sem gista þar geti kallað það heimili. Í Kvennaathvarfinu mega konur ekki vera undir áhrifum. Þess vegna skiptir svo miklu máli að finna búsetuúrræði fyrir þessa einstaklinga. Fólk á götunni er ekki fært um að vinna með sinn vanda og oft er mikil áfallasaga að baki hjá því. Í heimildarmyndinni Lof mér að lifa sem sýnd var á RÚV fyrir skemmstu var rætt við konur sem voru á leið í meðferð en voru ekki nægilega bjartsýnar á árangur því að þær vissu ekki hvar eða hvort þær ættu einhvers staðar höfði sínu að halla eftir meðferðina. Það má líkja þessum hópi við flóttamenn sem hafa flúið heimili sitt og lífið verður alltaf einn flótti meðan þær hafa ekki öruggt skjól. Húsnæði innan fjögurra veggja er efnisatriði, en heimili er byggt upp í hægfara ferli, er stundum sagt. Brotið heimili er því oft þröskuldurinn sem margir hnjóta um í endurhæfingarferli sínu.

Þátttaka í samfélagi skiptir alla máli. Endurkoma á vinnumarkað getur líka skipt sköpum, bæði efnahagslega og í að endurheimta heilsuna. Vinnumarkaðurinn þarf að vera tilbúinn að taka á móti fólki sem kemur úr endurhæfingu, kannski með skert vinnuþrek í fyrstu, en hefur fullan vilja til að taka þátt. Hlutastörf og sveigjanlegur vinnutími kemur sterkt inn og á endanum hlýtur það að vera sameiginlegt hagsmunamál allra að skapa fólki möguleika á endurkomu út á vinnumarkaðinn.

VIRK hefur unnið ötult starf og hjálpað mörgum í að endurheimta vinnuþrek sitt og sjálfstraust. Þjónustan hefur miðað að því að styðja einstaklinga með heilsubrest aftur út á vinnumarkað. Hluti fólks í endurhæfingu leitar í sitt fyrra starf eða þarf að leita á ný mið. Endurhæfing á sér líka stað í gegnum starf og vinnu og er mikilvægt skref í endurkomu í samfélagsþátttöku.

Virðulegi forseti. Við erum með samþætta stefnu til fjögurra ára í geðheilbrigðismálum en tíminn tikkar og núverandi stefna rennur út á árinu 2020. Þá er væntanlega kominn tími til að horfa á næstu skref og hvert skuli stefna. Hver verða áhersluatriðin í næstu stefnu? Verður lögð áhersla á að búa til stefnu sem nær yfir einstaklinga með tvíþættan vanda? Samþykktar stefnur ættu að vera sem lífrænastar og ættu stöðugt að vera í endurskoðun með áherslu á víðtækt samráð svo að þekking og reynsla nýtist best. Þess er vænst að öll vinna sem tengist framkvæmd geðheilbrigðisstefnu leiði til skipulegri vinnubragða, skýrari verkaskiptingar, aukinnar samhæfingar og samvinnu við að efla heilsu og auka vellíðan almennings og draga úr áhrifum ójafnaðar á heilsu. Þannig náum við að viðhalda ásættanlegu geðheilbrigði um allt land.