149. löggjafarþing — 25. fundur,  25. okt. 2018.

40 stunda vinnuvika.

181. mál
[17:29]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg):

Frú forseti. Ég ætla aðeins að koma inn í þessa umræðu um styttingu vinnuvikunnar. Eins og hv. þingmönnum er kunnugt héldu Vinstri græn flokksráðsfund ekki fyrir alls löngu þar sem lýst var yfir stuðningi við þá kröfu sem nú er uppi í samfélaginu um að stytta vinnuvikuna. Ég efast ekkert um góðan hug flutningsmanna sem leggja þetta mál fram. Á hinn bóginn standa nú fyrir dyrum kjarasamningar allra stærstu launþegasamtakanna við atvinnurekendur og ég vil leyfa mér að efast um að það sé besti tíminn til að leggja mál eins og þetta fram á þeim tímapunkti. Ég á bágt með að sjá að það muni á einhvern hátt liðka til fyrir þeim samningum þó svo að krafan í sjálfu sér, um styttingu vinnuvikunnar, sé að mínu mati rökstudd, þ.e. það er eðlileg krafa og ég myndi alltaf hvetja til hennar, og raunar, bara svo það sé sagt, byrjaði ég sennilega fyrst að skrifa um þetta mál fyrir 12 til 15 árum í fjölmiðla og hef hreyft við þessu í ræðum.

En það sem fylgir styttingu vinnuvikunnar er ekki einungis það að vinnuvikan styttist heldur fylgir það líka, eins og ég nefndi í ræðu um daginn, að alls konar umhverfismál og alls konar þættir sem snúa að bættu samfélagi koma þar líka með. Erum við til að mynda ekki líklegri til þess að vera umhverfisvænni neytendur ef tímapressan er minni á okkur og ef við höfum meiri tíma til að sinna sjálfum okkur og okkar? Erum við ekki líklegri til þess að eyða meiri tíma með fjölskyldunni o.s.frv.?

En það er mikilvægt að hafa í huga, og það er algjört grundvallaratriði, vil ég meina, að í hugmyndum verkalýðshreyfingarinnar í þessum málum er krafan alltaf sú að stytta vinnuvikuna án þess að lækka laun. Þegar menn eru að tala um 37, 35 eða 32 stunda vinnuviku eru menn að tala um þá vinnuviku og sömu laun. Eftir því sem ég skil þetta frumvarp er ekki endilega verið að gera það hér og ég held því að það sé, þrátt fyrir þann góða hug sem hér fylgir, ekki tímabært að samþykkja þetta mál núna.

Mín skoðun er sú að verkalýðshreyfingin og vinnuveitendur eigi sjálfir að ná þeim skrefum og ná þeim áfangasigrum sem þeir geta og síðan neglir löggjafarvaldið niður hælana til að tryggja að ekki verði hægt að semja af sér þau réttindi síðar. Ég held að það sé affarasælla og raunar hafa þær umsagnir og sú umræða sem hefur komið fram frá fjöldahreyfingunum einmitt verið á þann veg.