149. löggjafarþing — 25. fundur,  25. okt. 2018.

búvörulög og búnaðarlög.

17. mál
[19:40]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil benda hv. þingmanni á að eftir hrun voru það í raun íslenskar landbúnaðarafurðir sem héldu niðri verðbólgu, eftir að gjaldmiðillinn hafði hrunið. Hv. þingmaður minntist á það í ræðu sinni áðan að samkeppnisumhverfið og t.d. tilgreindir skyldir aðilar væru í samkeppnislögum. Það er alveg hárrétt hjá hv. þingmanni og þess vegna langar mig að spyrja hann: Væri hv. þingmaður til í að taka á því með mér að endurskilgreina hugtakið um skylda aðila í samkeppnislögum? Þá gætum við kannski brotið upp ofurvald verslunarinnar sem er nú um stundir, merkilegt nokk, í eigu lífeyrissjóðanna á Íslandi. Það er í sjálfu sér eiginlega alveg sama í hvaða verslun maður fer, maður er alltaf að versla við lífeyrissjóðinn og alltaf að borga inn á lífeyrinn sem maður fær þegar maður er orðinn gamall.

Ég spyr hv. þingmann hvort hann væri kannski til í að opna þetta frumvarp aðeins upp og skilgreina betur skylda aðila í samkeppnislögum (Forseti hringir.) þannig að við getum tekið á þeim þriðja aðila sem er ekki nefndur í frumvarpinu, sem er verslunin.