149. löggjafarþing — 25. fundur,  25. okt. 2018.

almannatryggingar.

24. mál
[23:23]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Steinunni Þóru fyrir að koma upp og ræða málið. Það er eiginlega stórfurðulegt að hún skuli vera eini stjórnarþingmaðurinn sem kemur upp og er tilbúinn til að ræða það. Ég er alveg sammála henni að því leyti til að við verðum líka að líta heildstætt á kjör ellilífeyrisþega vegna þess að við erum að tala um að flestallir eru á um 205.000 kr. útborguðum, sem er mjög lágt og við vitum að ekki er lifandi á þeim kjörum.

Ég verð líka að benda á að fyrir rúmri viku síðan var alþjóðadagur fátæktar eða baráttudagur gegn fátækt. Eftir ræðuna sem ég hélt á þeim degi var haft samband við mig af nokkuð mörgum aðilum. Það sem sló mig mest var að stærsti hópur þeirra, eða 90%, var konur með börn og það sem sló mig líka, ellilífeyrisþegar. Það sýnir hversu alvarlegt ástandið er þegar ellilífeyrisþegi þarf að búa við það að geta ekki keypt sér mat.

Ég spyr hv. þingmann hvort hún sé sammála þeirri niðurstöðu sem kemur frá Tryggingastofnun ríkisins sem hún sendi inn 4. maí 2018. Þar segir að kostnaður vegna þessa frumvarps sé 1 milljarður og 30 milljónir. Hugnast henni það? (Forseti hringir.) Þetta er það lítil upphæð að ekki ætti að vera mikið vandamál að dekka það.