149. löggjafarþing — 25. fundur,  25. okt. 2018.

almannatryggingar.

24. mál
[23:29]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Mig langar í seinna andsvari að endurtaka það sem ég sagði áðan um að ég telji mikilvægt að horfa heildrænt á kjör eldri borgara en líka að horfa á og reyna að leggja heildrænt mat á það hvað breyting, svo sem sú sem hér er lögð til, myndi hafa í för með sér. Því var velt upp í umræðunni í dag hvort hún gæti þýtt breytta hegðun, þ.e. að fólk færi að taka fullan lífeyri og vera í fullu starfi á sama tíma.

Ég veit ekki hvort þeirri sviðsmynd hefur verið velt upp í útreikningunum sem liggja til grundvallar einhverjum af þeim tölum sem hafa verið nefndar, annaðhvort frá dr. Hauki Arnþórssyni eða frá Tryggingastofnun ríkisins, en það er eitt af því sem ég tel að hv. velferðarnefnd þurfi að setjast yfir og leggja mat á og reyna að draga upp sem gleggsta mynd af. Ég endurtek að von er á því að starfshópur sem fjallar um málefni eldri borgara skili af sér á næstu dögum. Vonandi verður þar efniviður sem hægt er að nota til þess að við getum búið sem best um kjör eldri borgara í landinu.