149. löggjafarþing — 25. fundur,  25. okt. 2018.

skilgreining auðlinda.

55. mál
[23:40]
Horfa

Bergþór Ólason (M):

Virðulegur forseti. Ég vil þakka hv. þm. Sigurði Páli Jónssyni fyrir að flytja þetta mál hér. Ég held að skynsamlegt sé að farið verði í gegnum þá vinnu sem lagt er upp með í þingsályktunartillögunni.

Við eyðum allnokkrum tíma í þessum sal í að ræða um veiðigjöld í sjávarútvegi en á sama tíma vita allir sem hér eru, og auðvitað allir sem eru úti á akrinum, að til eru margvíslegar auðlindir úti um allt, margvíslegrar gerðar og fjölbreyttra gæða. Ég held að það verði hollt fyrir okkur að þær upplýsingar verði teknar saman, reynt að greina hverjar eru þess eðlis að þær geti verið andlag gjaldtöku ríkisins, ef menn ákveða svo, rétt eins og um veiðigjaldið, hverjar eru bundnar einkaréttarlegum eignarrétti og hverjar eru þeirrar gerðar að jafnvel ætti að hvetja þá sem aðgang hafa til að nýta þá auðlind sem fyrir fótum þeirra er.

Ég vil ítreka að ég held að þetta sé skynsamlegt mál. Ég vona að það fái framgöngu og verður örugglega vel tekið á móti því í umhverfis- og samgöngunefnd. Ég held að okkur sé hollt að víkka umræðuna sem snýr að auðlindagjöldum og auðlindum í samfélaginu sem við búum í.

Að því sögðu óska ég þessari tillögu alls hins besta.