149. löggjafarþing — 26. fundur,  5. nóv. 2018.

skerðingar í bótakerfinu.

[15:31]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Undanfarið hef ég fengið fullt af ábendingum frá fólki um skerðingar. Nýjasta dæmið er einstæð móðir sem gerði þá vitleysu að taka út séreignarsparnað til að borga niður skuldir, til að vera betur stödd, til að koma börnum sínum í skóla. En hvað skeður þá? Jú, séreignarsparnaðurinn er tekinn króna á móti krónu og af því að litið er á hann sem tekjur er hann líka notaður til að skerða aðrar bætur.

Ég spyr: Hversu lengi á svona vísvitandi fjárhagslegt ofbeldi að viðgangast? Er það okkur til sóma á þinginu að við samþykkjum að hætta að hirða styrki og annað en gerum ekki neitt?

Fyrrverandi ríkisstjórn og núverandi ríkisstjórn hafa greinilega viðhaldið þessu fjárhagslega ofbeldi vísvitandi og viljandi.

Ég spyr þá: Hvers vegna í ósköpunum er verið að borga styrkina? Hvers vegna í ósköpunum er verið að leyfa öryrkjum að fá séreignarsparnaðinn ef nota á hann til að stela af þeim aftur krónu á móti krónu? Við hljótum að geta samþykkt hér og nú að fara að hætta svona ótrúlegu ofbeldi og það gegn fólki sem er svo veikt að það getur ekki varið sig. Því að þetta er gert ári seinna. Það áttar sig ekki á að það er að tapa stórfé, fé sem það þarf fyrir mat og lyfjum.

Ég spyr ráðherra: Hvenær ætlar hann að sjá til þess að þetta verði tekið af? Um næstu áramót, þarnæstu eða hvenær?