149. löggjafarþing — 27. fundur,  6. nóv. 2018.

störf þingsins.

[13:38]
Horfa

Guðjón S. Brjánsson (Sf):

Virðulegur forseti. Fyrir skemmstu mælti mennta- og menningarmálaráðherra hér á hinu háa Alþingi fyrir frumvarpi til laga um stuðning við útgáfu bóka á íslensku. Vilji ráðherra og okkar allra stendur til að efla lestur, læsi og skilning, ekki síst meðal barna og ungmenna.

Einmitt af því tilefni leyfi ég mér sem fulltrúi í Vestnorræna ráðinu að vekja athygli á því að um sama leyti voru vestnorrænu barna- og unglingabókmenntaverðlaunin veitt í níunda sinn á barnabókmenntahátíð í Norræna húsinu í Reykjavík. Þau komu að þessu sinni í hlut færeyska rithöfundarins Bárðar Óskarssonar fyrir bókina Tréð. Hann bætti svo um betur og krækti sömuleiðis í bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs í sama flokki á verðlaunahátíð sem haldin var í Ósló fyrir réttri viku, þar sem vestnorrænu þjóðirnar komu, sáu og sigruðu.

Þar sem mér finnst alveg sérstakt umhugsunarefni í þessu sambandi er að það virðist algjörlega undir hælinn lagt hvort verðlaunabækurnar séu síðan þýddar á vestnorræn tungumál, sem ætti að vera keppikefli. Það er mikilvægt að öll börn hafi aðgang að góðum bókum til aflestrar á þessum örsmáu málsvæðum sem eiga ekki síður en við á brattann að sækja gagnvart tungumálarisum og þrýstingurinn vex í hinum stafræna heimi.

Frá árinu 2006 hafa fáar verðlaunabókanna verði þýddar á öll tungumálin, nánast ekkert á færeysku, engin á grænlensku eða samísku. Það er mjög miður.

Herra forseti. Svipað var uppi á teningnum varðandi bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs til skamms tíma. Það hefur nú verið fært til betri vegar og mun nú ríflega 3 milljónum danskra króna varið til þýðinga á verðlaunabókum Norðurlandaráðs, sem lýsir þar með vilja Norðurlandaráðs til þess að fleiri bækur verði aðgengilegar á öllum norrænum tungumálum.

Herra forseti. Það eru fáar leiðir betri en í gegnum barna- og unglingabókmenntir til að færa þessi litlu málsamfélög nær hvert öðru, skilja menninguna og ólíkar aðstæður. Var það ekki m.a. upphaflegi tilgangurinn?