149. löggjafarþing — 27. fundur,  6. nóv. 2018.

störf þingsins.

[13:43]
Horfa

Ari Trausti Guðmundsson (Vg):

Herra forseti. Átta tegundir veiðarfæra eru í notkun í sjó á Íslandi, allt frá botnvörpum til gildra. Samkvæmt svörum við fyrirspurn minni til hæstv. sjávarútvegsráðherra sem aftur leitaði til Hafrannsóknastofnunar er þrennt lagt til grundvallar við mat á umhverfisáhrifum. Það er orkunotkun. Það er svokölluð kjörhæfni, þ.e. hvaða afla menn ná í og stærð fiska og annað slíkt, og síðan áhrif á vistkerfið eða lífverur sem veiðarfæri snerta og deyða. Það heitir óskráður fiskveiðidauði. Ég hvet alla hv. þingmenn til að kynna sér svörin sem eru þakkarverð og eru á fimm síðum.

Botnvarpan er það veiðarfæri sem er einna umdeildast eins og menn vita. Þar er orkunotkun há, kjörhæfni reyndar góð en umtalsverð áhrif á vistkerfi. Það eru reyndar framfarir, menn eru að nota toghlera sem snerta lítið botn og annað slíkt. En engu að síður er það veiðarfærið sem mest er um deilt. Önnur veiðarfæri hafa aðallega áhrif eftir botngerð.

Af svörunum að dæma er töluvert verk að vinna, einkum í brýnum rannsóknum á Íslandi sem hafa í raun og veru ekki farið fram. Ég vil fá að lesa úr svörunum, með leyfi virðulegs forseta:

„Ekki hafa verið gerðar margar rannsóknir á beinum áhrifum notkunar mismunandi veiðarfæra á mismunandi botngerðir hér við land enda vantar meiri og betri kortlagningu botngerða og vistkerfa umhverfis landið.“

Í öðru lagi:

„Skilgreina þarf mismunandi búsvæði, bæði út frá umhverfisaðstæðum og þeim lífverum sem þar dveljast, eða nýta sér þau. Áhrif mismunandi veiðarfæra er þá hægt að meta fyrir hvert búsvæði fyrir sig. Gæta skal að viðkvæmum búsvæðum og að ekki sé gengið of nærri einstökum búsvæðum sem myndi minnka fjölbreytileika þeirra hér við land.“

Það er sem sagt verk að vinna og það er til umhugsunar hvort ekki þurfi að styrkja þann þátt í starfsemi Hafrannsóknastofnunar sem lýtur að slíkum aðgerðum.