149. löggjafarþing — 28. fundur,  7. nóv. 2018.

Alexandersflugvöllur sem varaflugvöllur fyrir Keflavíkur-, Reykjavíkur-, Akureyrar- og Egilsstaðaflugvelli.

34. mál
[19:39]
Horfa

Smári McCarthy (P) (andsvar):

Herra forseti. Mér þykir þessi tillaga nokkuð áhugaverð og ég ætla að fara svolítið yfir ýmsa þætti í ræðu minni hér á eftir. En mig langar til að fá aðeins dýpri skilning á tillögunni sjálfri hjá hv. þingmanni, sér í lagi varðandi það hvaða aðrir möguleikar hafi verið skoðaðir af flutningsmönnum þegar þeir voru að semja tillöguna og hvernig þetta var borið saman miðað við áhættumat. Það væri áhugavert að vita hvort þetta var fyrst og fremst skoðað í samhengi við þjóðhagslega hagkvæmni eða hvort flugöryggisþættir hafi verið skoðaðir eitthvað grundigt. Það er mikið af vandamálum varðandi flugöryggi á Íslandi, bara núverandi uppsetningu, vegna þess hreinlega hversu mikið álag er af flugvélum sem fljúga yfir Atlantshafið. Kannski er aðaláhættan í flugi frá Bandaríkjunum og Norður-Ameríku en kannski á hún líka eftir að aukast með tilkomu Indlandsflugs.

Það þarf stórvægilegt átak í flugöryggismálum almennt. En mér finnst þessi tillaga koma úr svolítið undarlegri átt og mig langar til að skilja betur forsendurnar sem voru lagðar tillögunni til grundvallar.