149. löggjafarþing — 29. fundur,  8. nóv. 2018.

tekjuskattur og stuðningur við nýsköpunarfyrirtæki.

301. mál
[12:29]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Gert er ráð fyrir því að eitthvað færri fyrirtæki rekist í þakið, en á hinn bóginn er ljóst að sum fyrirtækjanna sem eru með starfsemi hér á landi eru nú orðið með það mikil umsvif að það er alveg augljóst að hærra þak mun ekki tryggja að endurgreiðslubeiðnir þeirra fáist allar afgreiddar. Ég get nefnt í þessu sambandi fyrirtæki eins og CCP og Marel, sem eru einfaldlega með svo umfangsmikla starfsemi að það er nokkuð ljóst að þau munu rekast í þetta þak. En engu að síður er alveg víst að hækkun þaksins mun skipta máli í starfsemi þeirra. Það er kannski einmitt það sem ég held að við þurfum að velta fyrir okkur, um það eiga frekari breytingar á kerfinu að snúast, hvort við eigum að velta fyrir okkur hversu fá fyrirtæki rekast í þakið eða hvort endurgreiðsluhlutfallið ætti mögulega koma til endurskoðunar, sem mundi tryggja fleiri og smærri fyrirtækjum meiri endurgreiðslu.