149. löggjafarþing — 29. fundur,  8. nóv. 2018.

hlutafélög og einkahlutafélög.

38. mál
[17:31]
Horfa

Brynjar Níelsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Jú, allt eru þetta peningar, ég geri ekki lítið úr því. Ég mun fjalla á eftir um mikilvægi þessa fyrirkomulags, hlutafélagafyrirkomulagsins, og ég tel ekki rétt að torvelda það með þeim hætti sem gert er hér og kannski jafnvel eyðileggja það að hluta til. Það er annað mál. Ég er einfaldlega að segja að að þetta er, held ég, ekki næstum því eins mikið vandamál og hv. þingmaður talar um í framsögu sinni. Ég man ekki hvað ég skipti mörgum þrotabúum í gamla daga þar sem var bara ein krafa, það var áætlun gjaldheimtunnar í Reykjavík. Það var eina krafan. Stundum voru auðvitað einhverjir ógreiddir lágir reikningar, svona eru flest þessi mál.

Þetta mál hér tekur hins vegar á öllu. Það skiptir engu máli hvort um er að ræða refsiverða háttsemi, hvort um er að ræða eðlilegan rekstur sem fór á hausinn, ekki er litið til neinna aðstæðna. Þetta bara gengur yfir alla án þess að litið sé til þess hvernig þrotið kom til, hvað var gert í rekstrinum o.s.frv. Slík frumvörp eru að mínu viti aldrei góð. Við höfum alltaf stofnanir til að fara yfir það, skiptaráðanda og stofnanir — skiptastjóri heitir það víst núna — til að fara yfir hvort eitthvað óeðlilegt hafi verið í rekstrinum. Ef slíkt hefur verið er farvegur fyrir það. Ef menn hafa gerst brotlegir er ekkert mál að torvelda að slíkir menn verði í forsvari fyrir fyrirtæki.