149. löggjafarþing — 29. fundur,  8. nóv. 2018.

hlutafélög og einkahlutafélög.

38. mál
[17:33]
Horfa

Flm. (Þorsteinn Sæmundsson) (M) (andsvar):

Nú veit ég ekki hvort hv. þingmaður hefur ekki heyrt til mín í ræðunni sem ég flutti hér áðan, þegar ég sagði að rannsókn frá 2005 benti til þess og leiddi í ljós að stjórnendur rúmlega 73% fyrirtækja teldu fyrirtæki sitt hafa tapað á kennitöluflakki. 73% fyrirtækja, 73% aðspurðra, höfðu tapað á kennitöluflakki. Hvorki á áætlun gjaldheimtunnar né neinu slíku heldur reikningum á milli aðila sem ekki höfðu fengist greiddir.

Hvað það varðar að þetta sé aðför að hlutafélagaforminu þá vil ég mótmæla því. Það var einu sinni sagt að rónar kæmu óorði á brennivínið. Kennitöluflakkarar koma óorði á hlutafélagaformið. Það er næsta víst. En þeir gera ekki bara það. Þeir valda líka skaða. Þeir valda tjóni. Ef það er þannig — og ég efast ekki um að niðurstaða þessarar rannsóknar frá 2005 sé rétt, ég efast ekki um að menn hafi sagt þar heiðarlega frá — að 73% stjórnenda telji sig hafa orðið fyrir skaða af kennitöluflakki held ég að okkur sé ekki stætt á öðru en að bregðast við með einhverjum þeim hætti sem gæti lágmarkað áhættu á slíkri starfsemi.

Ég þekki alveg til þess að áætlað sé á þá sem ekki hafa skilað skattframtölum, og reksturinn fari allur yfir um. En þá er líka önnur spurning: Höfum við sérstakan áhuga á því að menn sem haga sér þannig — láta áætla á sig ár eftir ár og enda í gjaldþroti með kröfu sem er kannski ekki alveg á rökum reist — haldi áfram í fullu starfi?