149. löggjafarþing — 29. fundur,  8. nóv. 2018.

hlutafélög og einkahlutafélög.

38. mál
[18:24]
Horfa

Flm. (Þorsteinn Sæmundsson) (M):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka fyrir þá umræðu sem hér hefur farið fram. Það er nú einu sinni dásemdin við lýðræðið að við þurfum ekki öll að vera sammála. Ég heyrði það á ræðumönnum, alla vega tveimur, sem hér tóku til máls að þeim þótti mjög langt gengið og vegið að þeim sem stunda frjálsa atvinnustarfsemi.

Nú er það ekki svo að ég telji að hlutafélagsformið sé uppspretta svindls nema síður sé. Ég ber mikla virðingu fyrir því formi og það er rétt sem hv. þm. Brynjar Níelsson sagði áðan, það er kannski undirstaðan að velmegun Vesturlanda. Ég vil samt draga fram aftur þær tölur sem ég var með áðan sem leiddu í ljós, samkvæmt rannsóknum, að allt að 0,3% af landsframleiðslu hverfa í kennitöluflakki eða 7 milljarðar kr. á ári. Rannsókn frá 2005 segir að 73% stjórnenda fyrirtækja telja sig eða fyrirtækið sem þeir starfa fyrir hafa tapað á kennitöluflakki. Þetta eru ekki áætlaðir skattar, þetta er ekki vörslugjöld. Þetta eru upphæðir sem menn eru að tapa í frjálsum viðskiptum. Tölurnar sem ég færði fram í minni framsöguræðu áðan eru m.a. fengnar úr nýlegri meistararitgerð þar sem gerð var sérstök rannsókn á kennitöluflakki á Íslandi. Þær eru ekki gripnar úr loftinu. Þær eru ekki skáldaðar upp, þær eru teknar úr vísindalegri rannsókn eða rannsókn sem er gerð á akademískum forsendum. Ég bið menn að hafa það í huga.

Er þetta refsing? Það kann vel að vera að þetta sé refsing. Okkur er líka refsað ef við erum tekin oftar en einu sinni ölvuð undir stýri. Þá missum við réttindin tímabundið til að stýra ökutæki. Ég veit að það er umferðarlagabrot og hér er ekki um lögbrot að ræða, sagði hv. þm. Brynjar Níelsson. Það kann vel að vera.

Ef það er svo að það sé búið að baka 73% af stjórnendum fyrirtækja eða fyrirtækjum í landinu tjón með kennitöluflakki þá langar mig að taka upp hanskann fyrir þessi 73%. Ekki sérstaklega út af því að mig langi til að refsa þeim sem svindluðu á þeim eða höfðu af þeim þetta fé með einhverjum hætti. Ég vil samt taka upp hanskann fyrir þessi 73% sem urðu sannarlega fyrir tjóni af völdum kennitöluflakks.

Ég er út af fyrir sig ofsalega ánægður með að þetta mál skyldi komast á dagskrá og ég er líka mjög ánægður með að þessar umræður skyldu fara fram sem hér hafa verið og ég er mjög ánægður með að það skyldi vera dreginn fram sá ágreiningur sem er uppi á milli þeirra sem aðhyllast mest frjálsræði og okkar sem drögum lappirnar, að sögn, meintir íhaldsmenn og dragbítar. Ég var þeirrar skoðunar lengi vel eins og hv. þm. Óli Björn Kárason að innst inni séu allir menn heiðarlegir. Ég get alveg viðurkennt það að reynsla mín t.d. af því að vera að innheimtumaður ríkissjóðs í 11 ár hefur sett smábeyglu í þá trú mína. Ég viðurkenni það fúslega. Ég skal líka viðurkenna, hafandi stundað ýmis viðskiptastörf í allmörg ár, að sú reynsla beyglaði þá skoðun að allir séu heiðarlegir innst inni. Því miður. Til þess eru nú þeir refir skornir með þessu frumvarpi hér, að koma böndum á þá sem eru óheiðarlegir og bera blak af þeim sem verða fyrir tjóni af þeirra völdum.

Ég fagna því að þetta frumvarp mun nú fara til hv. efnahags- og viðskiptanefndar. Ég vona sannarlega að fyrir nefndina verði kallaðir mjög margir gestir, mjög margir gestir úr viðskiptalífinu til að þeir geti sýnt fram á eða sagt frá reynslu sinni af áhrifum af kennitöluflakki. Ég vænti þess að sú umfjöllun verði til þess að dýpka þetta mál, mögulega að það taki einhverjum breytingum í meðförum nefndarinnar. Það er bara eðlilegt ef nefndin telur að breyta þurfi. Aðalatriðið er það að við, þ.e. löggjafinn, gefum út með einhverjum ákveðnum hætti að við ætlum ekki að bera blak af kennitöluflakki. Við viljum lágmarka það. Við viljum að það sé úr sögunni og ég tel að löggjöfin eigi að gefa það í skyn með ótvíræðum hætti.

Það sem lagt er til í frumvarpinu og hefur valdið mikilli geðshræringu og gagnrýni hjá sumum ræðumönnum hér í dag hefur virkað, takk bærilega, í Svíþjóð t.d. og víðar. Ég hef ekki orðið var við það, það getur vel verið að svo sé en ég hef ekki orðið var við það, að viðskiptalíf þar hafi orðið fyrir skaða af því að menn skerptu á leikreglum og kröfum til þeirra sem stunda viðskipti. Það sem mínir góðu kollegar hv. þm. Óli Björn Kárason og Brynjar Níelsson hafa viljað kalla refsingu kýs ég að kalla reglufestu.

Hvað sem við gerum hér og hvað sem gert verður við þetta frumvarp í hv. efnahags- og viðskiptanefnd finnst mér að menn megi ekki komast að þeirri niðurstöðu eða láta líta svo út að kennitöluflakk sé á einhvern hátt eðlilegt, það sé eðlilegur fylgifiskur þess að stofna fyrirtæki. Ég vek athygli á því aftur að hér er gert ráð fyrir því að fyrirtæki sem einstaklingar eða lögaðilar hafa stofnað eigi að hafa lifað í 18 mánuði rúma, 18 mánuði og einn dag, svo ég sé nákvæmur. Ef um er að ræða tvö fyrirtæki sem ekki hafa lifað þann tíma af á þremur árum séu stjórnendum þeirra settar skorður við því að þeir stofni eða komi að stjórnun fyrirtækja í ákveðinn tíma á eftir. Er þetta harkalegt? Kannski. Stundum þurfa menn að setja leikreglur sem duga.

Ég segi aftur: Eigum við ekki að horfa á þá sem verða fyrir tjóninu? Eigum við ekki að horfa á töluna sem er líka úr meistararitgerðinni sem ég vitnaði til áðan? Það má leiða líkur að því að kennitöluflakk í gjaldþrotum á Íslandi árin 2011–2013, á þriggja ára tímabili, hafi kostað allt að 22 milljarða króna. Hverjir hafa orðið fyrir þessu tjóni? Kröfuhafar, hugsanlega ríkissjóður. Ef það er rétt mat hjá hv. þm. Brynjari Níelssyni að ríkissjóður tapi yfirleitt mestu þá er það stærsti hluti þessarar upphæðar sem hér um ræðir. Ef við gefum okkur að það séu 70% eða þar um bil þá get ég fullyrt að ríkissjóður getur alveg notað 15 milljarða yfir þriggja ára tímabil, klárlega. Þjóðfélagið allt getur hæglega notað extra 7 milljarða á ári. Ef hægt er að koma í veg fyrir tjón upp á 7 milljarða á ári hverju með því að koma böndum á kennitöluflakk þá þykir mér alveg þess virði að það sé af stað farið til að reyna að koma í veg fyrir það.

Aðalatriðið er feginleiki minn yfir því að þetta mál skyldi komast á dagskrá, það er mikilvægt, og það er enn mikilvægara að það skuli komast til nefndar. Ég treysti því að umfjöllun nefndarinnar verði mjög markviss og vönduð og kallað verði eftir röddum þeirra sem orðið hafa fyrir tjóni af kennitöluflakki og það verði hlustað á þær raddir. Ef þær eiga betri ráð til en koma fram í frumvarpinu þá er ekkert mál að breyta frumvarpinu í meðförum nefndarinnar. Þá gera menn það. Árangurinn er það sem skiptir máli í þessu, ekki endilega aðferðin. Séu til aðferðir til að koma böndum á þessa meinsemd með öðrum hætti en getur um hér í þessum tveimur frumvarpsgreinum þá er ekki nema sjálfsagt að taka það til athugunar og fara fram með það sem vænlegra getur talist.

Ég get ekki tekið undir það að reglufesta og það að vera málsvari þeirra sem verða fyrir tjóni sé einhvers konar refsing á aðra sem gengið hafa um með hætti sem er ekki endilega saknæmur en er klárlega ekki siðlegur. Ég hlakka satt að segja til að hv. efnahags- og viðskiptanefnd taki þetta mál til gaumgæfilegrar meðferðar og það komi hingað aftur inn í þingsal til 2. umr. þannig að hægt sé að halda því áfram.