149. löggjafarþing — 30. fundur,  12. nóv. 2018.

atvinnuþátttaka fólks með skerta starfsgetu.

253. mál
[17:00]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Ég tel það vera mjög mikilvægt í velferðarsamfélagi okkar að allir fái að njóta sín, fatlaðir sem ófatlaðir, og að brú sé á milli framhaldsskólanna og atvinnulífsins, að þeir einstaklingar á sérbraut hafi möguleika eftir skólagöngu eins og jafnaldrar þeirra til að komast með einhverjum hætti út í atvinnulífið. Verið hefur skortur á því og ekki stuðningur og hætt við að ungt fólk einangrist heima hjá sér, sem er mjög slæmt.

Nú í aðdraganda kjarasamninga hefur mikið verið talað um virkni, starfsgetumat og annað því um líkt. En þá verður atvinnulífið og hið opinbera líka að vera tilbúið til að taka á móti því fólki sem vill taka þátt í atvinnulífinu eftir getu. Ég tel að það sé mjög mikilvægt að ríki, sveitarfélög, atvinnulífið og verkalýðsfélög komist að einhverju samkomulagi þar sem hvatar eru settir inn í atvinnulífið, (Forseti hringir.) bæði hjá hinu opinbera og í einkageiranum, til að taka á móti þeim hópi sem við viljum að fái líka að njóta sín á vinnumarkaði en hefur skerta starfsgetu.