149. löggjafarþing — 31. fundur,  14. nóv. 2018.

lækkun framlaga til öryrkja í fjárlögum.

[15:34]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Svarið við þeirri spurningu er já — og varla þörf á að taka svona umræðu hér.

Það er rangt sem hv. þingmaður segir, að öryrkjar hafi setið eftir. Ef við skoðum þróun á kaupmætti bóta kemur einfaldlega upp önnur mynd. Ég var að rekja það í svari við annarri fyrirspurn að við höfum hækkað bætur almannatrygginga um 30 milljarða að raunvirði þegar horft er á fjárlagafrumvarpið á næsta ári. Með þessum nýjustu breytingum má segja að það séu 29 milljarðar. Þetta er raunhækkun á hverju ári héðan í frá, borið saman við árið 2010.

Fyrir hvern bótaþega hafa greiðslurnar hækkað um 1,1 milljón á mann. Það er þess vegna rangt sem hv. þingmaður heldur fram, að sá hópur hafi setið eftir. Við höfum hækkað bæturnar um 75%. Þetta verðum við að geta rætt, vegna þess að staðan og þróunin er ákveðinn grunnur sem umræðan í dag þarf að byggja á. Tíminn ætti ekki að fara í vitleysu eins og rangtúlkanir á þróuninni.

Við þurfum að fara að ræða það sem mestu skiptir og það er hvernig við getum gert þær nauðsynlegu breytingar sem Öryrkjabandalagið og félagsmálaráðuneytið, og ég held margir þingmenn hér, eru sammála um að þurfi að gera á kerfinu. Það eru vissulega ákveðnar fátæktargildrur í kerfinu. Það eru umbætur sem menn eru að uppistöðu til sammála um að eigi að gera og það sem meira er: Við erum tilbúin með fjármagnið.

Ef hv. þingmaður gæti snúið umræðunni aðeins meira í áttina að því sem raunverulega varðar kaup og kjör þessa hóps, hvað við getum gert til að teygja okkur til þeirra sem eru í veikastri stöðunni, í stað þess að snúa út úr því sem liðið er held ég að við værum að taka skref í rétta átt.