149. löggjafarþing — 31. fundur,  14. nóv. 2018.

sálfræðiþjónusta í fangelsum.

137. mál
[17:13]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. flutningsmanni fyrir framsöguna og ræðuna. Ég hlustaði á ræður hennar og annarra þingmanna sem hafa tekið þátt í umræðunni héðan úr hliðarsal og taldi mig kannski ekki þurfa að fara í ræðu en mig langar að spyrja hv. þingmann tveggja spurninga um þetta ágæta mál sem hún ásamt öðrum þingmönnum Samfylkingarinnar flytur.

Í fyrsta lagi er gert ráð fyrir í tillögunni að það verði fastbundinn sálfræðingur á hverri starfsstöð eða á þeim starfsstöðvum sem nefndar eru í tillögunni. Ég velti fyrir mér hvort nægjanlegt væri að segja hreinlega í tillögunni eða ákveða að sálfræðingum hjá Fangelsismálastofnun verði fjölgað. Hv. þingmaður þekkir það eins og ég að til að mynda á stöðum, eins og Kvíabryggju, sem eru úti á landi, ef við getum orðað það þannig, getur oft verið erfitt að fá heilbrigðisstarfsfólk. Hv. þingmaður þekkir það, eins og ég sagði áðan. Hvort betra væri þá jafnvel að þeir sálfræðingar væru ráðnir af Fangelsismálastofnun en hefðu þá ekki endilega fasta starfsstöð einhvers staðar. Það er hægt að nota hluti eins og skype og annað til að taka viðtöl. Á stað eins og Kvíabryggju eru þrátt fyrir allt 23 rými og vera má að einhverjar vikurnar væri fullmikið í lagt að vera með sálfræðing á staðnum. En þá vikuna gæti t.d. verið þörf fyrir sálfræðing í einhverju öðru fangelsi Fangelsismálastofnunar.