149. löggjafarþing — 32. fundur,  15. nóv. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[11:18]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Ágúst Ólafur Ágústsson) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Formaður fjárlaganefndar kallar þetta ábyrgar ráðstafanir og segir að ekki sé verið að taka neitt af neinum. Hins vegar liggur alveg fyrir að verið er að skerða framlög til öryrkja um rúmlega 1 milljarð frá því sem áður hafði verið boðað í frumvarpi sem er einungis tveggja mánaða gamalt. Allt í einu eru 4 milljarðar sem áttu að koma inn 2019 orðnir 2,9 milljarðar. Þetta er afskaplega skýrt og hér er verið að þyrla upp ryki og stunda blekkingaleik.

Ef menn fela sig á bak við það að erfitt sé að breyta kerfinu — gott og vel, breytum þá kerfinu. Ef við segjum að kerfið breytist í mars eða apríl er hægur leikur fyrir okkur, og við gerum það oft, að láta svona ívilnandi aðgerðir gilda afturvirkt. Það hefur meira að segja verið gert þegar við höfum hækkað laun þingmanna, þau hafa hækkað afturvirkt. Ég átta mig því ekki á pólitík þessara þriggja flokka, að telja að breiðu bökin megi finna hjá öryrkjum — hjá öryrkjum af öllum hópum. Ábyrgur stjórnmálamaður stendur við orð sín (Forseti hringir.) og ég man ekki eftir svona vinnubrögðum, að menn skeri niður til öryrkja milli umræðna í þingsal. Það er fáheyrt, herra forseti.