149. löggjafarþing — 33. fundur,  19. nóv. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[15:26]
Horfa

Halldóra Mogensen (P) (andsvar):

Forseti. Mig langar til að ræða afnám krónu á móti krónu skerðinga. Í óundirbúnum fyrirspurnum 5. nóvember segir hæstv. ráðherra, með leyfi forseta:

„Verði fjárlagafrumvarpið samþykkt með 4 milljörðum inni tekur við að útfæra hvernig við nýtum þá fjármuni til þess að þeir komi sér sem best fyrir þennan hóp. Þar verður fyrst og síðast horft til skerðinga …“

Þar kemur einnig fram, með leyfi forseta:

„Það má ráðgera að 1. janúar verði breytingar þar sem 4 milljörðum verður varið í þá veruna. Hvenær? Já, það eru breytingar í vændum. 1. janúar munum við sjá breytingar.“

Ég vil spyrja hæstv. ráðherra: Þegar hann segir í ræðu sinni að breytingar séu í vændum 1. janúar, var hann þá að vísa í að draga eigi úr skerðingum eða var hann að vísa í starfsgetumatið? Mér heyrist af umræðunni eins og hún er búin að vera, og svörum sem gefin voru áðan, að þarna sé verið að vísa í starfsgetumatið.

Þá langar mig bara til að spyrja beint út: Er afnám þessara skerðinga háð því að öryrkjar samþykki starfsgetumatið? Hvers vegna er það svo?

Hvað er það sem ráðherra og núverandi ríkisstjórn hafa áhyggjur af varðandi það að afnema þessar skerðingar? Er það gríðarlegur kostnaður? Hvað er það nákvæmlega? Er búið að skoða hvað við fáum til baka? Hvaða sparnaður verður af því? Eða er bara litið á þetta sem hreinan kostnað sem við höfum ekki efni á? Eða hvað er það nákvæmlega sem ráðherra hefur áhyggjur af? Af hverju getum við ekki alla vega byrjað á að draga úr þessum skerðingum núna? Öryrkjar hafa sagt það lengi að þetta sé algjörlega ótengt, það sé alveg hægt að afnema skerðingar núna, eða alla vega draga verulega úr þeim, og fara svo í starfsgetumatið. Þetta tvennt þarf ekkert að hanga saman.

Ef ekki er verið að þvinga öryrkja til að samþykkja (Forseti hringir.) starfsgetumatið, hvers vegna er svona ofboðslega mikil áhersla lögð á að láta þetta tvennt hanga saman?