149. löggjafarþing — 33. fundur,  19. nóv. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[16:12]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Willum Þór Þórsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. þm. Halldóru Mogensen, formanni hv. velferðarnefndar, afbragðsræðu. Ég var mjög ánægður með ræðuna, ég verð bara að segja það, þannig að ég er eiginlega meira hér að taka undir fyrst og fremst tvo þætti í hennar ræðu. Það er fyrst að við eigum að horfa á þá fjármuni sem við leggjum í þessi stóru kerfi okkar, heilbrigðiskerfi, velferðarkerfi, með heildrænni hætti eins og hv. þingmaður kemur inn á, en líka sem fjárfestingu til framtíðar, eins og í menntakerfið. Ég er sammála hv. þingmanni þar. Það hefur mikið verið kallað eftir heildrænni stefnumótun í heilbrigðiskerfinu. Það kom mjög berlega í ljós á heilbrigðisþingi núna sem var haldið í upphafi mánaðar. Að því leytinu er ég líka ánægður með þetta fjárlagafrumvarp, það er sannarlega verið að auka fjármuni sem fara inn í þessi stóru kerfi, velferðarkerfið, heilbrigðiskerfið, menntakerfið, í samgöngur. Auðvitað getum við tekist á um það hvort nóg sé að gert. En það sem ég er sammála hv. þingmanni með er þessi heildræna nálgun, að samverkandi áætlanir birtist í fjárlagafrumvarpinu með einfaldari hætti. Í fyrsta lagi þurfum við að ná utan um þetta, svipað og við sjáum að samgönguáætlun er í fyrsta skipti fjármögnuð, það er jákvætt. En við þurfum að sjá þetta í fleiri áætlunum, að þessi samverkun birtist í fjárlagafrumvarpinu.

Hitt sem ég vil nefna og kem að í seinna andsvari varðar framsetningu á fjárlagafrumvarpinu.