149. löggjafarþing — 33. fundur,  19. nóv. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[16:16]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Willum Þór Þórsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni þetta samtal vegna þess að ég skildi ekki eftir spurningu. Spurningin hefði auðvitað mátt vera þessi: Hvernig sér hv. þingmaður fyrir sér aukna áherslu á forvarnir? Ég hef mikið talað um skipulagt barna-, unglinga- og æskulýðsstarf, það sé dýrmætt, en við verðum að horfa, held ég, á forvarnir í breiðari skilningi, t.d. hvaða úrræði við höfum fyrir þá sem eru einhverra hluta vegna í einhvers konar frávikshegðun, ýmiss konar meðferðarúrræði og hvernig við aðstoðum fólk í menntakerfinu o.s.frv.

Ég held að hv. þingmaður hafi verið að ræða hvernig við lítum á útgjöld til þessara mála til að hindra að þau lendi á heilbrigðiskerfinu seinna meir og um það erum við hv. þingmaður sammála.

Varðandi formið sem ég ætlaði að koma að seinna er það svo að hv. þingmaður og samflokksmaður hennar, hv. þm. Björn Leví Gunnarsson, eru í raun með sömu gagnrýni í sínu minnihlutaáliti og meiri hluti hv. fjárlaganefndar. Það er þannig að stofnanir leggja áætlanir inn í öll ráðuneyti, hvar ábyrgðin gagnvart málefnasviðunum liggur og áætla hver útgjöldin fyrir næsta ár verða. Úr þessu vinna ráðuneytin og síðan verður til frumvarp og við erum með fylgirit með frumvarpi sem sýnir hvernig þetta dreifist niður á stofnanir. Við höfum kallað eftir ítarlegri upplýsingum og skýrari inn í fylgiritið og jafnframt kallað eftir því sem heitir útgjaldabrú. Það sést ágætlega myndrænt í fjárlagafrumvarpinu en þarf frekari skýringa við. Ég tek bara undir með hv. þingmanni í því. En ég bið hv. þingmann um að koma aðeins að sínum skoðunum á forvarnamálum í seinna andsvari.