149. löggjafarþing — 33. fundur,  19. nóv. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[17:05]
Horfa

félags- og jafnréttismálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég er ánægður að ég og hv. þingmaður skulum vera sammála um þetta vegna þess að það er grundvallaratriði. Við verðum í auknum mæli að finna leiðir til að fjölga hlutastörfum, fjölga störfum sem eru fjölbreytt hlutastörf, og skilningur þarf að vera á því að einstaklingar með einhvers konar skerta starfsgetu geti verið mjög ólíkir, eiginlega jafn ólíkir og þeir eru margir.

Síðan verðum við líka að auka fjármagn til þeirra þátta sem eru fyrirbyggjandi. Meðal annars þess vegna aukum við fjármagn til vinnusamninga öryrkja á næsta ári, til þess að geta fjölgað störfum sem koma þarna inn. Við erum að tala um að auka fjárveitingar til hóps sem sannarlega þarf á því að halda. Þær greiningar sem við erum með fyrir framan okkur sýna aukningu á fjármagni til málaflokksins upp á tæpa 50 milljarða, úr 40 milljörðum í 90 milljarða, ef ekkert verður að gert. Þess vegna þurfum við að fara í þá vinnu að skoða hvernig við getum gert breytingar á kerfinu, hvernig við getum aukið stuðninginn við þá einstaklinga sem falla út af vinnumarkaði en ættu ekki að gera það. Það verður að gerast samhliða til að við sjáum fram á það.

Mig langar líka að spyrja, af því að hv. þingmaður hefur talað mjög mikið um krónu á móti krónu skerðingu. Það var sérstök umræða í síðustu viku um unga drengi. Ég tel að afnám krónu á móti krónu skerðingar muni ekki eitt og sér koma ungum drengjum af stað. Hvaða aðgerðir þurfum við að ráðast í til að gera það? Gerum við það ekki að hluta til með því sem við erum að gera? Ég held að ég og hv. þingmaður séum meira sammála um það en fyrirsagnir í fjölmiðlum gefa oft tilefni til.

Að öðru leyti vil ég þakka hv. þingmanni fyrir góða ræðu. Það er margt sem við erum sammála um þótt okkur greini kannski á um leiðir og annað slíkt.