149. löggjafarþing — 33. fundur,  19. nóv. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[18:11]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Willum Þór Þórsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið. Fyrst vil ég segja varðandi sjávarútveginn að það er alveg óskiljanlegt að Samfylkingin vilji stokka þetta kerfi upp þegar allir aðrir í heiminum segja okkur annað, bæði vegna sjálfbærnisjónarmiða og vegna þess að þessi atvinnugrein greiðir til samfélagsins miklu meira en alls staðar annars staðar gerist. En þá vill Samfylkingin á sama tíma stokka upp þetta kerfi. Það er mér algerlega óskiljanlegt. Svo væri auðvitað mjög freistandi að benda á það að þegar krónan gefur aðeins eftir núna þá mun útgerðin auðvitað hjarna aðeins við og ríkissjóður mun njóta góðs af því. Þannig á þetta auðvitað að virka.

Ég vil segja varðandi jöfnuðinn: Já, það er staðreynd að tekjujöfnuður 2016 eins og hann er mældur er mestur hér á Íslandi innan OECD og það er auðvitað mjög jákvætt. Eignaójöfnuður er meiri, það er rétt, enda hækkaði þessi ríkisstjórn fjármagnstekjuskatt. Við erum hins vegar með háa skatta, (Forseti hringir.) bæði á atvinnulíf og einstaklinga. Það er ástæðan fyrir því að við getum lítið hreyft okkur á því sviði til að mæta meintum ójöfnuði.