149. löggjafarþing — 33. fundur,  19. nóv. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[18:14]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Guðjóni S. Brjánssyni fyrir ræðuna, hún var yfirgripsmikil og tók á mörgum þáttum. Ég og fleiri hv. þingmenn vitum að hv. þingmaður brennur mjög fyrir velferðarmálum og hefur oft rætt þau hér í ræðustól af skynsamlegu viti. Þingmaðurinn ræddi nokkuð um hjúkrunarrými og þann kostnað sem væri við rekstur þeirra. Þar ræddi hann m.a. aðhaldskröfuna sem gerð er á allar heilbrigðisstofnanir upp á hálft prósent, en lögð hefur verið fram tillaga frá hv. fjárlaganefnd um að bæta 276 milljónum í rekstur hjúkrunarheimila, sem í sjálfu sér er upphæð sem meira en mætir þessari aðhaldskröfu þó að hún sé ekki beinlínis hugsuð í þeim tilgangi, heldur er hún hugsuð til þess að mæta hjúkrunarþyngd, sem má svo sem segja að höggvi í þann sama knérunn.

En það sem var lykillinn í því sem hv. þingmaður sagði í þessu samhengi var hins vegar að matið og kostnaðargreiningin á því sem ríkið kaupir í þjónustu hjúkrunarheimila liggur ekki nægilega vel fyrir. Hv. þingmanni til hughreystingar get ég upplýst hann um að nú þegar er í vinnu í heilbrigðisráðuneytinu, í samræmi (Forseti hringir.) við stjórnarsáttmálann, vinna við að endurmeta rekstrargrunn hjúkrunarheimilanna. Ég tel að þessi hliðrun hjá hv. fjárlaganefnd sé fyrsta skrefið í þá átt.