149. löggjafarþing — 33. fundur,  19. nóv. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[18:53]
Horfa

Albertína Friðbjörg Elíasdóttir (Sf):

Herra forseti. Það er sannarlega margt í þessum fjárlögum sem vert er að gefa gaum og margt sem sannarlega mætti gera betur. Augljóslega mætti forgangsröðunin vera að mörgu leyti önnur en hún er en auðvitað er ýmislegt annað sem er gott, svo að allrar sanngirni sé gætt. Hv. 3. þm. Reykv. s., Ágúst Ólafur Ágústsson, fór vel yfir það í ræðu á fimmtudaginn að í fjárlögum og fjármálaáætlun erum við í raun að móta hvernig samfélag það er sem við viljum búa í. Hvernig samfélag viljum við að Ísland sé? Viljum við búa í samfélagi þar sem íbúarnir sitja ekki allir við sama borð? Viljum við búa í samfélagi þar sem þeir sem minna mega sín er refsað æ ofan í æ þegar þeir reyna að lyfta sér upp úr erfiðleikum sínum, eins og staðreyndin er með bæði öryrkja og eldri borgara?

Það er ljóst að fjárlagafrumvarpið felur ekki í sér þá framtíðarsýn sem Íslendingar hafa verið að kalla eftir, margir hverjir. Mig langar þó að bæta við enn einu sjónarmiðinu og fjalla aðeins um þá spurningu hvort við viljum búa í samfélagi þar sem smærri samfélög fái aldrei tækifæri til að ná vopnum sínum á ný. Mig langar sem sagt að nálgast fjárlögin í dag út frá byggðapólitískum vinkli, en það vakti nokkra athygli fyrr í haust þegar Byggðastofnun tilkynnti að stofnunin gæti ekki rækt hlutverk sitt, gæti ekki sinnt lagalegu skyldum sínum vegna skorts á upplýsingum í fjárlögum. Samkvæmt 14. gr. laga um opinber fjármál kemur fram að Byggðastofnun eigi að gefa fjárlaganefnd Alþingis umsögn um áhrif frumvarpsins á byggðaþróun í landinu en í umsögn sinni segir forsvarsfólk stofnunarinnar það þó ekki vera hægt þar sem ekki er að finna í fjárlögunum neitt yfirlit yfir landfræðilega dreifingu tekna og útgjalda ríkisins. Ekki er heldur sýnd landfræðileg dreifing starfa á vegum ríkisins, opinberra hlutafélaga í eigu ríkisins eða starfa í stofnunum sem hafa stóran hluta tekna sinna af fjárlögum. Þetta er nokkuð sem hæstv. fjármálaráðherra og fjárlaganefnd hljóta að beita sér fyrir að verði lagfært, enda ekki ásættanlegt að stofnunum ríkisins sé ekki gert kleift að sinna lagaskyldu sinni, hvort sem það er gagnvart fjárlögum eða einhverju öðru.

Það er nefnilega í gegnum fjárlög sem íslensk stjórnvöld geta raunverulega haft áhrif á byggðaþróun í landinu. Það er akkúrat það sem samfélögin um allt land hafa í raun verið að kalla eftir. Þau eru ekki að kalla eftir sértækum aðgerðum. Þau eru ekki endilega kalla eftir stóriðju eða risavinnustöðum. Þau eru hins vegar að kalla eftir aðstæðum og innviðum sem gera þeim kleift að byggja upp fjölbreytta atvinnuvegi til þess að vera ekki ítrekað í þeirri stöðu að vera að bregðast við ákvörðunum þar sem fótunum er kippt undan þeim. Þau eru sem sagt að kalla eftir því að fá að sitja við sama borð, að geta komist á milli staða á sómasamlegan hátt allt árið um kring, að vegir séu öruggir og færir innan og á milli landshluta, að hægt sé að nota innanlandsflugið sem raunverulegar almenningssamgöngur. Í því samhengi má t.d. nefna skosku leiðina sem töluvert hefur verið rædd, m.a. í tengslum við byggðaáætlun.

Hæstv. samgönguráðherra skipaði í fyrrasumar starfshóp til að kanna mögulegar leiðir til að niðurgreiða innanlandsflug, til að mynda skosku leiðina, en því miður eru ekki von á lokaskýrslu um málið fyrr en í desember ef marka má fréttir. Gagnlegra hefði verið að starfshópurinn hefði reynt að láta niðurstöðurnar liggja fyrir fyrir umræðuna í dag, en vonandi telur ríkisstjórnin sig samt sem áður hafa svigrúm til að koma tillögum starfshópsins í framkvæmd strax á næsta ári. Gert er ráð fyrir því í útreikningum atvinnuþróunarfélaganna að kostnaður við skosku leiðina sé um 600–800 millj. kr., sem er aðeins hærri upphæð en auðvelt er að koma léttilega fyrir eftir á.

Það hljóta að vera mikil vonbrigði að meiri hluti fjárlaganefndar leggi til í 2. umr. að draga saman frá því sem boðað var til samgöngumála um 550 millj. kr., ekki síst þegar litið er til stöðunnar víðs vegar um land, t.d. fyrir austan, þar sem er löngu tímabært að ráðast í gangagerð til Seyðisfjarðar.

Þá má ekki gleyma fjarskiptunum, en til að skapa raunverulegt jafnræði á milli svæða er mikilvægt að net- og símatengingar séu þær bestu sem völ er á hverju sinni, hvar sem er á landinu, enda opna þeir innviðir á að raunverulega sé hægt að starfa hvar sem er á landinu og náttúrlega búa hvar sem er á landinu.

Í því samhengi langar mig að minnast á áhugaverða samantekt sem sjónvarpsþátturinn Landinn á RÚV sýndi nýverið, þar sem þeir fjölluðu um fjarvinnu og störf án staðsetningar. Með nýrri og betri tækni er það nefnilega að verða raunverulegur kostur að starfa á slíkan hátt.

Þá langar mig líka að nýta tækifærið og hrósa sérstaklega stjórnendum Umhverfisstofnunar hvað þetta varðar en stofnunin auglýsir langflest störf sín á þann hátt að þau eru án staðsetningar, sem er til algerrar fyrirmyndar. Þetta mættu aðrar ríkisstofnanir sannarlega taka upp og ég skora á forsvarsfólk þeirra hér með að skoða það. Fyrst ég er byrjuð að skora á fólk vil ég skora á ríkisstjórnina og fjárlaganefnd að skoða hvort ekki væri upplagt að setja pening í að skapa eins konar störf án staðsetningar pott sem stofnanir gætu sótt í framlög til að fjármagna uppsetningu skrifstofa eða aðstöðu fyrir starfsmenn sem starfa utan höfuðstöðva án staðsetningar.

Í því samhengi langar mig að koma aðeins inn á heimsókn sem hluti þingflokks Samfylkingarinnar fór í á Þingeyri nýlega. Á einum af þeim stöðum sem við heimsóttum var mjög merkilegt verkefni í gangi sem ég vona að allir þingmenn gefi sér tíma til að heimsækja sem allra fyrst, en það er tilraunaverkefnið Blábankinn. Blábankinn er þróunarmiðstöð á Þingeyri og er samstarf bæði einkaaðila og opinberra aðila. Í dag starfa þar tveir starfsmenn í einu stöðugildi en verkefnið, sem reynir eftir fremsta megni að skapa tekjur út frá eigin verkefnum, nýtur góðs stuðnings frá samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu og Ísafjarðarbæ.

Árangurinn af verkefninu eftir fyrsta árið er sannarlega hvetjandi en þar hafa samkvæmt ársskýrslu Blábankans 70 skapandi einstaklingar unnið 900 daga sem er utan þeirra stunda sem unnar eru fyrir Blábankann beint. Það hafa verið haldnir 87 viðburðir með 1.300 þátttakendum, samstarf verið átt um átta þróunarverkefni og fimm samningar verið gerðir um þjónustu við Þingeyinga.

Það var áhugavert að heyra þá staðreynd að þegar Blábankinn tók til starfa á Þingeyri vann enginn íbúa þar dæmigert skrifstofustarf. Blábankinn opnaði þarna samvinnurými með ljósleiðaratengingu, sem var auðvitað algert lykilatriði, og býður nú upp á sveigjanlegt skrifstofurými sem hver og einn getur fengið leigt. Markvisst hefur verið unnið að því að laða að frumkvöðla, einyrkja og skapandi fólk. Margir af þeim einstaklingum sem hafa komið og dvalið á Þingeyri hafa tekið virkan þátt í samfélaginu, m.a. boðið upp á fyrirlestra og tekið þátt í hugmyndavinnu um þróun á svæðinu. Þannig hefur þetta verkefni sannarlega burði til að vera árangursrík fjárfesting í því að skapa fjölbreyttara atvinnulíf og með tímanum skapandi vistkerfi á staðnum.

Því miður er það svo að með breyttu samfélagi, og það var svolítið áhugavert að átta sig á því í því samtali sem við áttum þarna, hefur á undanförnum árum mörgum af þeim stofnunum sem áður virkuðu sem eins konar samfélagsmiðstöðvar, staðir þar sem fólk átti samskipti, hittist á förnum vegi og átti samtöl við nágranna sína, eins og t.d. bankinn og verslunin o.fl., verið lokað. Það er í ofanálag þannig að í raun eru nær allar ákvarðanir er varða samfélag og atvinnulíf á Þingeyri teknar utan byggðarlagsins. Stærstu fyrirtækjunum er stjórnað annars staðar frá og svo gott sem öll stjórnsýsla á sér stað annars staðar. Þetta hefur neikvæð áhrif á frumkvæði, hæfni og tengsl samfélagsins til að móta eigin örlög út frá sérstöðu sinni og aðstæðum, eins og segir á heimasíðu Blábankans. Blábankinn hefur reynt að vinna gegn því með því að ýta undir og taka frumkvæði í málum er varða íbúa. Þá er vert að nefna að fulltrúi Byggðastofnunar, starfsmaður brothættra byggða, er einmitt með skrifstofu í Blábankanum og vinna þau tvö verkefni virkilega vel saman.

Af hverju er ég að eyða tíma hv. þingmanna í að fara yfir þetta? Jú, því að ég held að það sé mikilvægara en nokkru sinni fyrr að við styðjum við byggðirnar okkar og hafa fjölmargir aðrir staðir á landinu sýnt því áhuga á að taka upp Blábankaverkefnið hjá sér. Ég tel mikilvægt að hv. þingmenn og ráðherrar kynni sér verkefnið og styðji við áframhaldandi uppbyggingu þess, bæði á Þingeyri og víðar um landið.

Herra forseti. Ég á mér draum, sem er reyndar kannski útópía, þar sem allir íbúar landsins búa við traustar og góðar samgöngur og trausta nærþjónustu, eins og til að mynda heilsugæslu. Þar verð ég að nefna mikil vonbrigði yfir því að ekki sé komið til móts við heilbrigðisstofnanir utan höfuðborgarsvæðisins sem telja sig þurfa 400 millj. kr. til að geta sinnt grunnþjónustu. Ég endurtek: Til þess að geta sinnt grunnþjónustu. Mikilvægt er að skoða sérstaklega það sem Eyþing, Samband sveitarfélaga í Eyjafirði- og Þingeyjarsýslum, bendir á í umsögn sinni, að sérfræðiþjónustu lækna sé dreift um landið en einskorðist ekki við höfuðborgarsvæðið. Þá er sérstaklega mikilvægt að enn betur sé stutt við Sjúkrahúsið á Akureyri og brýnt að hefja byggingu legudeildar við sjúkrahúsið hið fyrsta sem og að tryggja fjármagn til spítalans til að tryggja þjónustu við sjúklinga með fjölþættan vanda.

Það er fjölmargt í þessum fjárlögum sem ég myndi vilja koma inn á. Í lokin ætla ég að halda mig fyrst og fremst á málefnasviði atvinnuveganefndar, enda er það nokkuð vítt. Eins og ég hef nefnt áður í ræðustól eru þeir málaflokkar ef til vill ekki útgjaldafrekustu málaflokkarnir en þeir eru samt sem áður býsna mikilvægir, enda standa þeir undir stórum hluta tekjuöflunar ríkisins.

Unnið er að stefnumótun í stórum málaflokkum sem undir nefndina heyra, eins og við þekkjum, svo sem orkustefnu, nýsköpunarstefnu, klasastefnu og langtímastefnu um ferðaþjónustu. Vinna við sumar af þeim stefnum er hafin og ljóst að klára á sumar þeirra á næsta ári, 2019.

Það er ekki að sjá að öll sú vinna og verkefni endurspeglist í þeim fjárlögum sem við erum með til umfjöllunar eða að almennilegt svigrúm sé skapað til að hrinda breytingum af stað. Málefnasvið atvinnuveganefndar skipta lykilmáli fyrir efnahagslegan stöðugleika í landinu, stöðugleika sem er mikilvægur fyrir hagkerfið, heimilin og fyrirtækin. Með áframhaldandi stöðugleika má auka samkeppnishæfni atvinnulífsins, auka verðmætasköpun og framleiðni þess. Það vekur sérstakar áhyggjur mínar að dregið er úr framlögum til nýsköpunar-, samkeppni-, og þekkingargreina. Það ber þó að virða að á síðustu árum hefur Rannís, og þá einkum Tækniþróunarsjóður, verið styrkt mikið, sem er mikilvægt.

Mikilvægt er að meta árangurinn af starfsemi Tækniþróunarsjóðs og móta aukið hlutverk hans, eins og verið er að gera, sem og að meta umhverfi nýsköpunar með gerð nýrrar nýsköpunarstefnu sem ég hlakka mikið til að sjá verða til. Þetta verður þó allt að skoðast í samhengi við það sem er í gangi í heiminum. Gert er ráð fyrir að sú vinna fari fram á alllöngum tíma, eða á árunum 2018–2022, en ljóst er að fjórða iðnbyltingin er hins vegar í fullum gangi á meðan við erum að endurskoða og velta fyrir okkur hlutunum. Ég vil vekja sérstaka athygli á því sem Austurbrú nefnir í umsögn sinni, sem er mikilvægi þess að horft sé sérstaklega til þjónustustofnana við landið allt þegar fjárveitingar eru ákveðnar og tryggt verði að þær stofnanir nýti fjárveitingar til að sinna sannarlega þeirri þjónustu sem þeim er gert að tryggja um land allt en nýti ekki tækifærið þegar það gefst til að leggja niður stöður utan Reykjavíkur, eins og við höfum allt of mörg dæmi um.

Herra forseti. Þó að þetta málefnasvið láti ef til vill ekki mikið yfir sér er það hins vegar gríðarmikilvægt til framtíðar landsins og ætti að styrkja það enn frekar. Ég vil benda á mikilvægi þess að horft verði til þess við áframhaldandi uppbyggingu menntakerfisins. Þar þarf m.a. að tryggja að aðsókn að iðn- og verknámi aukist á næstu árum, en mikilvægt er að verkleg þekking og kunnátta sé betur samtvinnuð við alla menntun ef Ísland ætlar sér raunverulega að taka áframhaldandi forystu.

Í sáttmála núverandi ríkisstjórnar stendur um landbúnaðarmál að Ísland eigi að vera leiðandi í framleiðslu á heilnæmum landbúnaðarafurðum og að leggja eigi áherslu á nýsköpun og vöruþróun til að stuðla að byggðafestu, auka verðmætasköpun og nýta tækifæri sem byggjast á áhuga á matarmenningu með sjálfbærni og gæði að leiðarljósi. Það er auðvitað hið besta mál.

Fyrirliggjandi fjárlög hljóta þó að valda landbúnaðargeiranum nokkrum vonbrigðum en ekki er gert ráð fyrir aukningu til málefnasviðsins heldur er gert ráð fyrir töluverðum niðurskurði, bæði til stjórnar landbúnaðarmála og til rannsókna, þróunar og nýsköpunar í landbúnaðarmálum. Sá niðurskurður hlýtur að teljast óheppilegur en sjaldan hafa verið jafn mörg sóknarfæri í íslenskri matvælaframleiðslu, ekki síst vegna mikillar fjölgunar ferðamanna á síðustu árum, og því leitt að ekki eigi að styðja við tækifæri til uppbyggingar með myndarlegri hætti.

Í fjármálaáætlun ríkisstjórnar kemur fram að horfa eigi til heilnæmrar matvælaframleiðslu og aukinnar verðmætasköpunar innan greinarinnar sem og huga að því að minnka losun gróðurhúsalofttegunda vegna starfsemi hennar, sem er mjög jákvætt. Sömuleiðis eru sett fram metnaðarfull markmið um aukna nýsköpun í virðiskeðju matvælaframleiðslu og m.a. að koma á fót öflugum sjóði sem styrkir nýsköpunar- og þróunarverkefni í matvælaframleiðslu. Ekki er þó að sjá að þau metnaðarfullu markmið séu fjármögnuð miðað við skert framlög til málaflokksins og staðfesta fjárlögin sem við ræðum það. Fáar atvinnugreinar eru jafn mikilvægar fyrir Íslendinga og landbúnaður og þess vegna mikilvægt að styðja vel við landbúnaðinn, til að mynda með því að endurskoða búvörusamninga með það að markmiði að bæta kjör og aðstæður bænda en sömuleiðis að tryggja neytendum sanngjarnt verð og sem mest gæði.

Á sama hátt held ég að sjaldan hafi verið jafn mikilvægt að horfa til aukinnar nýsköpunar í greininni og má þar m.a. nefna mál sem ég hef komið inn á áður, sem eru tækifærin sem felast í að nýta lághitann okkar og orkuna betur til framleiðslu á alls kyns grænmeti og ávöxtum. Af hverju ræktum við til að mynda ekki alls kyns graskerstegundir sem eru jafnvel ræktaðar í Alaska? Ég vil meina að aðstæður hér séu betri til slíks. Af hverju niðurgreiðum við ekki framleiðslu fleiri tegunda til þess að minnka þörfina á innflutningi og minnka tilheyrandi kolefnisspor? Með aukinni uppbyggingu garðyrkjuframleiðslu ættum við auðveldlega að geta framleitt allt það grænmeti sem Íslendingar þurfa og jafnvel rúmlega það.

Ég hefði því viljað sjá nokkuð aukin framlög til Landbúnaðarháskóla Íslands til að ýta undir rannsóknir og nýsköpun á möguleikum til framleiðslu grænmetis og ávaxta. Við ættum líka að vera að horfa til meiri hvata til aukinnar framleiðslu og aukinnar niðurgreiðslu raforku til garðyrkjubænda. Við ættum að vera að horfa til aukinnar nýtingar á orkunni okkar og hliðarstraumum orkuframleiðslu okkar til að auka alls kyns íslenska framleiðslu. Það er staðreynd að stórauka þarf matvælaframleiðslu í heiminum og þar hljótum við að bera nokkra ábyrgð. Auk þess sem við höfum tækifæri með aukinni framleiðslu höfum við, eins og ég nefndi áðan, tækifæri til að minnka kolefnisspor Íslands í heild þar sem þar með þyrfti að flytja minna inn, sem væri í samræmi við sjálfbærnimarkmið Sameinuðu þjóðanna.

Herra forseti. Nú þegar ferðaþjónustan er orðin stærsta atvinnugrein landsins leggur það enn meiri pressu á uppbyggingu stoðkerfis greinarinnar og uppbyggingu innviða. Samkvæmt upplýsingum frá Hagstofunni var hlutfall ferðaþjónustu af vergri landsframleiðslu 8,4% árið 2006, í samanburði við 7% hjá sjávarútvegi og 2,5% af framleiðslu málma. Hagstofan áætlar að heildarútflutningstekjur af erlendum ferðamönnum hafi verið 463 milljarðar kr. árið 2016 eða um 39% af heildarútflutningstekjum landsins, sem er meira en sjávarútvegur og álafurðir skiluðu samanlagt. Þá störfuðu á árinu 2017 rúmlega 27.000 manns við ferðaþjónustu.

Það er því ljóst að greinin er orðin mjög mikilvæg fyrir efnahag landsins og raunar svo fyrirferðarmikil í efnahagslífinu að töluverðar líkur eru á að sveiflur í henni hafi áhrif langt út fyrir ferðaþjónustuna sjálfa. Möguleg áhrif væru t.d. aukinn kostnaður vegna atvinnuleysis ef illa fer í greininni, versnandi viðskiptajöfnuður, minni skattgreiðslur og útlánatöp banka. Við sjáum þess merki á þessu ári að hægt hefur verulega á aukningu ferðamanna á Íslandi og því miður einkum eftir því sem fjær dregur suðvesturhorninu. Vonandi verður einhver viðsnúningur á því með veikingu krónunnar en við þurfum að vera á tánum gagnvart þróun greinarinnar. Það er því ákveðið áhyggjuefni að dregið sé úr stuðningi til greinarinnar frekar en hitt, eins og sjá má m.a. í verulega lækkuðum framlögum til Framkvæmdasjóðs ferðamannastaða.

Það er áhyggjuefni þar sem gæta þarf sérstaklega að því að vöxtur ferðaþjónustunnar valdi ekki óbætanlegum umhverfisskaða, enda væri þar einfaldlega verið að velta vandanum yfir á komandi kynslóðir. Framlög úr Framkvæmdasjóði ferðamannastaða hafa nefnilega skipt sköpum fyrir fjölda fjölsóttra ferðamannastaða og er mikilvægt að við höldum áfram því góða starfi sem þar hefur verið unnið.

Þá eru einnig nokkur vonbrigði að ekki er í neinu brugðist við ítrekuðum kröfum sveitarfélaganna um að þau fái hlutdeild í tekjum af ferðaþjónustunni en þar hefur m.a. flutningur gistináttaskatts verið skoðaður og reyndar sérstaklega nefndur í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar. Ekki er einu orði minnst á þau áform í fjárlögum ársins 2019 og rétt að minna á breytingartillögu Samfylkingarinnar þar sem lagt er til að gistináttaskatturinn renni til sveitarfélaganna. Vonandi mun sú tillaga fá góðan stuðning í þinginu.

Herra forseti. Okkur hefur orðið tíðrætt á þessu þingi um mikilvægi aukinnar dreifingar ferðamanna um landið en eftirfylgni með þeim markmiðum er ekki að sjá í frumvarpi til fjárlaga. Á meðan einstaka staðir glíma við allt of marga ferðamenn eru stór svæði vannýtt. Ekki er að sjá merki um að styðja eigi við uppbyggingu annarra flugvalla en Keflavíkurflugvallar til að tryggja raunverulega dreifingu ferðamanna um landið. Þess er reyndar ekki síður þörf til að auka öryggi en eins og kemur fram í umsögn Icelandair vegna samgönguáætlunar Alþingis fyrir árin 2019–2023 er mikilvægt að auka rými fyrir flugvélar, viðhald og uppbyggingu alþjóðlegra flugvalla á landsbyggðinni sem nýttir eru sem varaflugvellir. Á hverri stundu treysta um 30 vélar á tvo varaflugvelli ef eitthvað kemur upp á á Keflavíkurflugvelli sem í dag er útilokað að gera vegna takmarkaðs rýmis á þeim tveimur. Þetta þýðir að við ákveðnar aðstæður getur veruleg hætta skapast. Mikilvægt er að brugðist sé við þeirri stöðu sem fyrst en hvorki er merki um það í samgönguáætlun sem nú er til umfjöllunar í þinginu né í fjárlögum þeim sem við ræðum.

Það er mikið ákall eftir uppbyggingu innviða og þjónustu við landsmenn og mikilvægt að svara því kalli sem er íbúum landsins greinilega ofarlega í huga. Þá má benda á að með fjárfestingum í mikilvægum innviðum, eins og til að mynda bættum samgöngumannvirkjum og sterkara raforkukerfi, er ekki síður verið að greiða niður skuldir. Það er mikilvægt að gleyma því ekki að með því að sinna ekki uppbyggingu og endurbótum á innviðum verður mikil skuldasöfnun þar sem vextirnir eru mun hærri en æskilegt er. Við höfum sannarlega ekki staðið við okkar í þeim afborgunum og er löngu komið að skuldadögum. Þannig snýst þetta í raun um aukið öryggi, aukin lífsgæði og nauðsynlega fjárfestingu til að byggja undir hagvöxt framtíðar, sem hlýtur að vera forgangsverkefni stjórnvalda hvar í flokki sem þau standa. Í því samhengi vil ég minna á breytingartillögu Samfylkingarinnar um að standa mun betur að samgönguáætlun og auka framlög í hana um 2 milljarða.

Herra forseti. Hér allra síðast vil ég koma lítillega inn á áætluð orkuskipti og loftslagsmál. Vert er að fagna mjög auknu framlagi til loftslagsmála þótt ég sé enn þeirrar skoðunar að hægt væri að gera betur, sérstaklega þegar horft er til stóraukins hlutverks opinberra aðila í áætluðum orkuskiptum og loftslagsmálum. Samkvæmt markmiðum Parísarsamkomulagsins er gert ráð fyrir 13% hlutfalli endurnýjanlegra orkugjafa í samgöngum fyrir árið 2023. Augljóst er að hætta verður háum sektargreiðslum þegar loftslagsmarkmiðin verða samþykkt, nokkuð sem verður umtalsvert dýrara fyrir íslenskt samfélag þegar upp er staðið heldur en einfaldlega að standa við sitt og gera betur í dag.

Í því samhengi má nefna enn og aftur mikilvægi þess að strax verði gefið meira í uppbyggingu innviða. Sömuleiðis má nefna tækifærin sem gætu falist í uppbyggingu aukinnar nýtingar orkuauðlinda, eins og t.d. með því að horfa í auknum mæli til fjölbreyttari kosta líkt og vindorku þar sem mikil framþróun hefur orðið á undanförnum árum og tækifæri fyrir Ísland til að nýta það til að tryggja enn meiri stöðugleika í raforkuöflun. Einnig má minnast á tækifærin sem felast í ræktun nýrra skóga en eins og oft hefur komið fram er nauðsynlegt að horfa til aukinnar kolefnisbindingar samhliða bættri nýtingu orkuauðlinda og er fagnaðarefni að það sé gert í auknum mæli í tillögum ríkisstjórnarinnar.

Herra forseti. Það er fjölmargt annað sem ég hefði viljað koma inn á varðandi fjárlög 2019 en ég ætla að láta staðar numið. Ég vil allra síðast minna á góðar breytingartillögur Samfylkingarinnar og vona að þingheimur standi með okkur í því að gera þær að veruleika.