149. löggjafarþing — 33. fundur,  19. nóv. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[20:59]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V):

Herra forseti. Þegar svona langt er komið í umræðunni er fátt eftir ósagt. Ég hyggst samt taka mér smátíma í að fara yfir helstu mál sem mér þykja mikilvæg eða sláandi í umræðunni.

Það segir kannski allt sem segja þarf um óstöðugleikann sem við búum við í efnahagsmálum að frá því að fjárlagafrumvarpið var lagt fram í september hafa forsendur breyst um tæpa 4 milljarða kr. Þjóðhagsspáin var of bjartsýn og þess vegna koma núna breytingar og aðgerðir vegna kólnandi hagkerfis. Þetta höfum við í Viðreisn ítrekað bent á í fyrri umræðum um fjármálastefnu, í umræðum um fimm ára fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar í vor sem og í 1. umr. um fjárlög fyrir aðeins örfáum vikum.

Viðbrögð ríkisstjórnarinnar við endurskoðaðri þjóðhagsspá fólust í einföldu máli í því að skera niður fyrri loforð um útgjaldaaukningu, fyrst og fremst í heilbrigðis- og velferðarmálum, um 7 milljarða, og bæta síðan við nokkrum gæluverkefnum, misjafnlega mikilvægum kannski í stóru myndinni.

Þegar við í Viðreisn vöruðum við því að í fyrstu útgáfu réði för of mikil bjartsýni um efnahagshorfur töluðum við um að nær væri að halda útgjaldaaukningunni í skefjum og beita frekar aga og skilvirkni til að nýta fjármuni ríkisins sem best, líklega væri eftir meiru að slægjast þar með almannahagsmuni í huga. Við vöruðum við því að ríkisstjórnin félli í þá gryfju að nota útgjaldaaukningu sem helsta mælikvarða á störf sín án nauðsynlegrar framtíðarsýnar í hverjum málaflokki fyrir sig, stefnumótun og forgangsröðun verkefna. En það var ekki hlustað í vor, ekki hlustað í september og því eru viðbrögð ríkisstjórnarinnar við versnandi horfum í ríkisrekstri eðlilega niðurskurður útgjalda frá því frumvarpi sem var kynnt um miðjan september.

Eins og alkunna er fékk fjárlaganefnd Alþingis síðan niðurskurðarlistann kynntan, afhentan í upphafi síðustu viku, og stimplaði hann.

Ég efast ekkert um að þær niðurskurðaraðgerðir hafi að ákveðnu leyti verið erfiðar fyrir ríkisstjórnina. Þegar farið er í erfiðar aðgerðir af því tagi er gríðarlega mikilvægt, bæði fyrir þá sem ákvarðanirnar þurfa að taka en ekki síst fyrir þá sem þær bitna á, að stuðst sé við einhverja tölulega greiningu. Hver eru mælanlegu markmiðin í árangri, t.d. í heilbrigðismálum, í forvarnamálum, í málaflokki aldraðra og öryrkja? Og hver eru þau í menntamálum? Þar er nefnilega sama uppskrift að mótast og í heilbrigðis- og velferðarmálum, útgjöld án framtíðarsýnar, skýrrar stefnu og mælanlegra mælikvarða. Svo þarf að draga saman og þá þarf að gera það án þess að styðjast við þá forgangsröðun sem gæti byggt á þeirri stefnumótun sem svo sárt er saknað. Í menntamálunum var t.d. boðuð stórsókn í iðn- og starfsnámi en skólar sem bjóða upp á slíkt nám, líkt og Tækniskólinn, þurftu að vísa nemendum frá í haust.

Varðandi velferðarmálin er fyrst og fremst sláandi að sjá niðurskurð um 1,1 milljarð kr. af þeim 4 milljörðum sem áttu að fara í að bæta kjör öryrkja, niðurskurð sem til er kominn fyrst og fremst, ef marka má orð þeirra sem ráða för, vegna ákvörðunarfælni viðkomandi ráðherra um það í hvaða átt hann vildi fara. Þó blasir við að það að afnema krónu á móti krónu skerðingu, sem allir virðast sammála um að sé mikilvægt forgangsverk, kostar um 10 milljarða kr. Með þeim fjármunum hefði verið hægt að fara af stað í fyrsta áfanga.

Ég held að ýmsa sem það mál snertir hefði munað um þá mánuði sem hægt hefði verið að leggja fyrr af stað en nú er sagt að sé ætlunin.

Síðan eru settar 20 milljónir í Bjarkarhlíð, miðstöð fyrir þolendur ofbeldis. Þær 20 milljónir eiga að tryggja áframhald starfseminnar. Það er gott og blessað en það er sannarlega ekki stórsókn. Miðað við þann faraldur sem virðist vera í samfélaginu er þetta ekki einu sinni aukning heldur frekar trygging á því að við þó höldum sömu stöðu. Sett í samhengi við annað er það ansi aumt og dugar skammt. Þetta samhengi segir okkur t.d. að á sama tíma eru settar 10 milljónir, og þá er ég að tala um umgang númer tvö, niðurskurðarfjárlögin, í undirbúning á landsmóti hestamanna, 100 milljónir til að vinna bug á peningaþvætti, sem ég hafði ekki áttað mig á að væri enn sem komið er gríðarlega alvarlegt vandamál hér á landi, og 20 milljónir til að undirbúa kvennaþing, sem er sannarlega hið fínasta málefni. Allt þetta setur hlutina í ákveðið samhengi.

Það er heldur ekkert viðbótarframlag í VIRK Starfsendurhæfingarsjóð sem vantar 70–80 milljónir til að sinna sínu, sem samt væri ekki nægilegt miðað við þau stóru orð sem félagsmálaráðherra hefur haft um vinnumarkaðinn og þau verkefni sem VIRK ætti að vinna þar.

Til að bíta höfuðið af skömminni eru síðan áform um að auka kaupmátt eldri borgara og öryrkja um hálft prósent á næsta ári skorin niður. Þar er sparaður tæpur milljarður. Ríkisstjórnin ætlar sem sagt ekki að gera neitt til að bæta öldruðum og öryrkjum það upp gangi spár um aukna verðbólgu eftir á næsta ári. Það mun að óbreyttu leiða til verulegra kjaraskerðinga fyrir þá hópa.

Á sama tíma og við fögnum 100 ára fullveldisafmæli þjóðarinnar fær kynslóðin sem vann fyrir því sem við eigum í dag töluverða kaupmáttarskerðingu í boði ríkisstjórnarinnar og vegna elsku hennar á íslensku krónunni. Sínum augum lítur hver fullveldið og til hvers var barist.

Þegar lesið er í heilbrigðiskafla fjárlaganna, þ.e. töku tvö, eru skýru línurnar þær að mörg og mikilvæg forvarnaúrræði eru einfaldlega á hrakhólum eftir niðurskurðinn; geðheilbrigðismálin, starfsendurhæfingin, SÁÁ, starfsemi Krabbameinsfélagsins o.fl. Þá virðist fyrirhugaður niðurskurður í greiðsluþátttöku sjúkraþjálfunar vera í deiglunni. Það er einfaldlega furðu lítil sýn á þann langtímaávinning sem hægt er og mikilvægt er að sækja með því að hlúa að þeim úrræðum. Kannski liggur svarið í því að hér er oft og tíðum um að ræða einkarekin úrræði en eins og alkunna er eiga þau ekki upp pallborð ríkisstjórnarinnar, þau eru raunar í útrýmingarhættu.

Það er líka áhugavert og dapurlegt að sjá að í því ástandi sem hefur verið fjallað töluvert um og ríkir í íslensku samfélagi og varðar fíknivandann er viðbragð ríkisstjórnarinnar ansi aumt. SÁÁ hefur lýst því yfir að það þurfi 200 millj. kr. viðbótarframlag til að ráðast á þá biðlista sem þar hafa skapast. Ríkisstjórnin mætir því ekki, viðurkennir þörfina en peningarnir eru ekki til. Kannski hefði 200 millj. kr. uppskipting ráðuneytanna mátt bíða um sinn.

Framlög til nýrrar meðferðarbyggingar Landspítalans eru skorin niður um 2,5 milljarða kr. Þeirri ráðstöfun fylgir áframhaldandi óhagræði í rekstri og framlengingu á óviðunandi stöðu fyrir jafnt sjúklinga sem starfsfólk, óhagræði sem hefur jafnframt keðjuverkandi neikvæð áhrif á ýmsa aðra þætti heilbrigðisþjónustunnar. Ætli sú töf kalli á frekari útgjöld annars staðar? Eða kannski minni útgjöld? Kemur þetta út á pari? Verða biðlistarnir lengri? Hver veit? Í alvöru, veit það einhver?

Svo langar mig að ræða biðlistann aðeins. „Langar“ er kannski ekki rétta orðið heldur finnst mér nauðsynlegt að ræða biðlista þegar fjármögnun heilbrigðiskerfisins er til umræðu. Það bárust nefnilega nýlegar fréttir af áhyggjum landlæknis vegna þess að ekki eingöngu hefur ekki tekist að vinna á biðlista eftir hjúkrunarrýmum heldur hefur hann lengst um 20% á milli ára. Að meðaltali eru núna 411 einstaklingar að bíða eftir hjúkrunarrýmum samanborið við 342 eftir fyrstu þrjá ársfjórðunga síðasta árs. Það er sem sagt skorið niður í uppbyggingu hjúkrunarrýma á sama tímapunkti og fréttir berast um þetta. Skorið er niður um heilan milljarð króna.

Hvað er þetta svo með íslenska heilbrigðiskerfið og biðlista? Hvernig stendur á því að þeir eru orðnir eitt helsta einkennismerki þessa kerfis okkar sem samkvæmt helstu mælikvörðum er eitt það besta í heimi? Ódýrt er það sannarlega ekki. Það er svo sem óþarfi að fjölyrða hér um biðlista eftir aðgerðum á borð við mjaðmaskipti og hnéskipti sem mikið hefur verið fjallað um að undanförnu og engin raunveruleg skýring verið gefin á því önnur en sú að veikindi fólks séu mögulega fórnarkostnaður þar í viðleitni heilbrigðisyfirvalda við að ríkisvæða kerfið En þetta eru ekki einu biðlistarnir. Til viðbótar við lengingu biðlista eftir hjúkrunarrýmum getum við talað um biðlista hjá geðlæknum og sálfræðingum eða hjá hjartalæknum, en þar er tveggja ára bið eftir brennsluaðgerðum vegna hjartsláttartruflana. Það er nær sama hvar drepið er niður, biðlistar eru málið.

Embætti landlæknis hefur lýst yfir þungum áhyggjum af þeim áhrifum sem löng bið eftir hjúkrunarrýmum getur haft, bæði á lífsgæði þeirra sem bíða svo og á heilbrigðiskerfið. Þær áhyggjur má sannarlega yfirfæra á alla biðlista okkar. Það þarf einfaldlega að vera forgangsverkefni að verja tíma og athygli í að greina hvernig við getum nýtt þá fjármuni sem í boði eru á sem hagkvæmastan hátt til að tryggja landsmönnum jafnt og stöðugt aðgengi að heilbrigðisþjónustunni, án þess að nota biðlista sem helsta stýritæki stjórnvalda. Það ríkir nefnilega samfélagsleg sátt um að verja mjög stórum hluta útgjalda þjóðarbúsins til heilbrigðismála. Það er hins vegar engin samfélagsleg sátt um að ógnarlangir biðlistar séu eitt helsta einkennismerki kerfis okkar.

Herra forseti. Í samgöngumálum er verið að skera niður um rúman hálfan milljarð á milli útgáfu eitt og tvö í fjárlögum, en ekki liggur enn fyrir nákvæmlega hvað það er sem á að skera niður. Ég ætla að láta nánari umræðu um samgöngumálin bíða þess að umhverfis- og samgöngunefnd klári vinnu sína varðandi samgönguáætlun — og þó ekki alveg því að ástæða er til að halda því til haga að þegar samgönguáætlun var lögð fram lýsti ríkisstjórnin því yfir að verið væri að lyfta grettistaki með því að auka framlögin um 4 milljarða og að í fyrsta skipti væri lögð fram fullfjármögnuð samgönguáætlun. Nú er sem sagt verið að skera hana niður um 500 milljónir án þess að sá niðurskurður endurspegli umræðu og vinnu í umhverfis- og samgöngunefnd sem hefur fjallað um samgönguáætlun síðustu vikurnar. Það má eiginlega segja að hér sé komin fram þriðja leiðin í samgöngumálum á stuttum tíma því að til viðbótar við þá samgönguáætlun samgönguráðherra, sem umhverfis- og samgöngunefnd hefur verið að fjalla um, hafa fulltrúar Sjálfstæðisflokksins í umhverfis- og samgöngunefnd verið duglegir að kynna eigin leið í samgöngumálum á sama tíma. Það eru því líklegast spennandi tímar fram undan hjá okkur í umhverfis- og samgöngunefnd.

Að lokum þetta: Það er ekkert óeðlilegt að ríkisstjórnin neyðist nú út í þann vandræðagang að stíga hraustlega á bremsurnar, tveimur mánuðum eftir að fjárlögin hin fyrri litu dagsins ljós, miðað við núverandi aðstæður og horfur í efnahagsmálum og miðað við hversu óvarlega var farið í fyrstu umferð. Staðreyndin er nefnilega sú að þótt mér hafi orðið tíðrætt um ómarkvissan niðurskurð á milli þessara tveggja útgefinna fjárlaga ríkisstjórnarinnar — og ég segi ómarkvissan þótt vissulega hafi rauði þráðurinn verið niðurskurður í velferðarþjónustunni, það er kannski ekki svo sérstakt í ljósi þess hve útgjaldafrekur sá geiri er — er um að ræða mjög mikla útgjaldaaukningu á blaði miðað við efnahagslegar forsendur, af því að það er enn mikil óvissa í kortunum. Ég held að nýjum og niðurskornum fjárlögum fylgi engar sviðsmyndagreiningar, ekki svo þingheimur viti a.m.k. Það er þannig ekki ólíklegt að við eigum eftir að kljást við enn frekari afleiðingar af efnahagsþróun á næstunni.

Mig langar rétt að klára með því að tala um að við erum nú að fara í gegnum vinnu með fjármálastefnu, fjármálaáætlun og svo fjárlög samkvæmt lögum um opinber fjárlög, í fyrsta skipti ótrufluð af óvæntum kosningum. Þegar lagt var af stað í þá vegferð var því heitið að fjáraukinn, eða fjáraukalög, myndu þar með heyra sögunni til og við yrðum þess í stað með svokallaðan varasjóð ríkisstjórnar til að mæta óvæntum útgjöldum. Allt er það í nafni aukins gegnsæis. Nú erum við sem sagt á þriðja ári í framkvæmd á þeim lögum. Staðreyndin er náttúrlega sú að varasjóður ársins var nýttur í samgöngumál, a.m.k. að hálfu, strax í upphafi árs. Við fengum fjáraukalög hjá ríkisstjórninni um síðustu áramót og nú, ef ég skil málin betur þegar ég hlusta á ansi ævintýralega umræðu um stöðu Íslandspósts, er verið að boða hálfs milljarðs króna útgjöld þar í fjárauka. Við virðumst horfa inn á það að þótt engar óvæntar kosningar séu til að afsaka það að við förum út og suður og náum ekki að halda okkur innan ramma opinberra fjárlaga með þau mál séum við að nota varasjóðinn í ekki svo mjög óvænt útgjöld og nota svo fjáraukann í útgjöld sem komu, merkilegt nokk, mörgum á óvart, þ.e. að Íslandspóstur sé að sigla í strand. Þetta er allt ansi áhugavert.

Mig langar að nefna eitt að lokum. Þetta er í þriðja skiptið sem ég kem að einhverju „að lokum“, herra forseti, ég lofa þetta sé síðasta skiptið. Ef að líkum lætur munum við halda áfram þessari umræðu á morgun. Á morgun er líka, eftir því sem ég kemst næst, gert ráð fyrir að atvinnuveganefnd Alþingis afgreiði út veiðigjaldafrumvarp ríkisstjórnarinnar. Án þess að ég sé sérstaklega vongóð væri ansi gaman að sjá viðsnúning á forgangsröðun ríkisstjórnarinnar sem fæli í sér að lækkun veiðigjalda um einhverja milljarða, um 3 milljarða, yrði frestað um eitt ár, jafnvel á meðan við erum að vinna og ræða hönnun á nýju veiðigjaldakerfi. Staða sjávarútvegsins er ákaflega sterk, eins og oft vill verða þegar þrengir að öðrum í hagkerfinu. Kannski felur nýr dagur í sér að öðruvísi fréttir berist af forgangsröðun ríkisstjórnarinnar.

En ég ætla að láta þetta duga í þetta sinn.