149. löggjafarþing — 33. fundur,  19. nóv. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[21:56]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Willum Þór Þórsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég ætla ítreka það sem ég sagði í fyrra andsvari, það er afar gagnlegt að fara yfir þetta með þessum hætti. Mér fundust skuggafjárlögin sem Píratar lögðu fram fyrir kosningar ekki aðeins vera sniðug heldur virkilega gagnleg, ekki bara fyrir þeirra kjósendur heldur fyrir alla kjósendur sem eru að velta þessum málum fyrir sér, í hvað peningarnir fara. En mér sýnist sú forgangsröðun sem birtist í fjárlagafrumvarpinu bara ríma ágætlega við marga af þeim þáttum sem við sjáum í skuggafjárlögum. Auðvitað eru fjárhæðirnar eitthvað öðruvísi, en málefnasviðin eru þarna.

Hv. þingmaður er í flokki sem leggur mikla áherslu á gagnsæi og upplýsingagjöf og að nýta internetið og hin rafrænu kerfi til að auka hagræði, og samflokksmaður hv. þingmanns, hv. þm. Björn Leví Gunnarsson, sem er í hv. fjárlaganefnd, hefur lagt mikla áherslu á að auka og þess vegna bæta fjárlagafrumvarpið, framsetningu þess. Hann hefur verið með mjög gagnlegar ábendingar sem koma fram í áliti minni hluta.

Ég ætla að spyrja hv. þingmann eilítið út í formið, af því að hv. þingmaður var, ef ég man rétt, á þingi þegar við samþykktum lög um opinber fjármál. Núna hefur umræðan svolítið snúist um þær breytingar sem þurft hefur að gera á frumvarpinu á milli hagspáa. Það birtist þannig að hagspáin fer aðeins niður frá því sem við höfum upplifað undanfarin ár og birtist eilítill ósveigjanleiki í því að (Forseti hringir.) beita markvissri hagstjórn. Það hefur verið dálítið í umræðunni. Hver er skoðun hv. þingmanns á því?