149. löggjafarþing — 33. fundur,  19. nóv. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[22:40]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M):

Hæstv. forseti. Við fjöllum hér um fjárlagafrumvarpið í umhverfi sem búið var til fyrir nokkru. Ég hef áður lýst því að ákveðnir gallar séu við það umhverfi allt saman, þ.e. við það ferli sem við samþykktum. Ég held að við þurfum að endurskoða hluta þessara laga um opinber fjármál í það minnsta hvað varðar aðkomu nefnda að þessari vinnu. Ég tel að það komi æ betur í ljós að þingið er nokkuð sett til hliðar í þessu ferli öllu en framkvæmdarvaldið ræður meira för en áður. Kerfið stýrir þessu meira en það gerði áður. Við sem ekki sitjum í fjárlaganefnd höfum ekki fengið tækifæri til að fjalla um þá liði fjárlaga sem heyra undir okkar nefndir. Ekki hefur einn fundur í utanríkismálanefnd verið um fjárlögin sem slík, til að fara yfir innihald fjárlaga eða þann hluta þeirra sem lýtur að utanríkismálum.

Okkur hefur ekki gefist tóm til eða færi á að kafa ofan í tillögurnar, breytingar eða athugasemdir, og gera athugasemdir eða breytingartillögur við frumvarpið. Nálgun okkar er þannig bara út frá textanum eins og hann er í frumvarpinu, sem er alls ekki lýsandi fyrir alla hluti. Ég hef spurt hverju þetta sæti. Af hverju fá nefndir ekki að fjalla um málin? Upplýsingarnar sem við fáum eru þær að um sé að ræða reglur sem fjárlaganefnd hafi sett, að biðja fagnefndirnar ekki um álit á á fjárlögunum. Ég hef grun um að um sé að ræða reglur sem hafa verið almennt samþykktar, en hvað um það, því þarf að breyta, þetta er í raun óþolandi.

Ég ætla að fjalla um utanríkismál síðar í þessari ræðu og reyna að gera þau að mínu aðalumfjöllunarefni, þótt það sé erfitt án þess að hafa fengið umfjöllun um málið. Fjárlögin sem hér liggja frammi eru lögð fram í fádæma góðu umhverfi þótt blikur séu vissulega á lofti. Efnahagsumhverfið hefur sjaldan verið jafn gott og undanfarin ár og undanfarið ár, má kannski segja. Staða ríkissjóðs er gríðarlega góð, ekki síst vegna þeirra aðgerða sem farið var í á árunum 2013–2016 þar sem tókst að innheimta mikið fé úr hinum föllnu bönkum eða frá hinum svokölluðu vogunarsjóðum sem áttu bankana, og að sjálfsögðu vegna þess að okkur tókst að leiðrétta skuldir heimilanna. Með leiðréttingunni tókst okkur í raun að gera heimilin aftur að virkum þátttakendum í íslenskum efnahag.

Flestir þeir sem hafa tjáð sig hér í kvöld eða eru með nefndarálit í þessu máli hafa varað við of mikilli bjartsýni, að hagkerfið sé að kólna o.s.frv. Það virðist svo sem vera yfirvofandi, ef marka má alla þá sérfræðinga sem fjallað hafa um málið fyrir utan þennan sal og ef marka má greiningar eða skýrslur bankanna sem hafa komið út undanfarið.

Mér finnst ákveðnir hlutir í þessu fjárlagafrumvarpi sem ég ætla að drepa á nokkuð merkilegir í sjálfu sér. Ég ætla ekki djúpt í forsendurnar og alla þá talnaleikfimi sem þarna er, ágætlega hefur verið farið yfir það. Ég verð að viðurkenna að þar sem engin umfjöllun hefur fengist um ákveðna þætti í utanríkismálanefnd er ég ekki í stakk búinn til þess að fjalla um ákveðna hluti hér. En það er áhugavert að sjá að enn og aftur eru ríkisútgjöld stóraukin og blása út. Það sem er sérstakt við það er að það er gert á vakt Sjálfstæðisflokksins sem hefur farið með fjármálaráðuneytið undanfarin ár, og í raun í mjög langan tíma ef undan eru skilin árin 2009–2013. Gert er ráð fyrir að ríkisútgjöld aukist um 57 milljarða eða um rúman einn milljarð á dag …(Gripið fram í.) eða á viku, eins og fram kemur í nefndaráliti 3. minni hluta. — Ég þakka hv. þingmanni fyrir, það eru víst aðeins fleiri dagar í árinu en 57. — Í áliti 3. minni hluta, í áliti hv. þm. Birgis Þórarinssonar, kemur einnig fram að stjórnarmeirihlutinn ætli að fjármagna breytingartillögur sínar með sölu losunarheimilda, líklega upp á eina 4 milljarða, eins og stendur í nefndarálitinu. Vaknar þá sú spurning hvort meiri hlutinn telji öruggt að við þurfum ekki að kaupa slíkar heimildir til baka í framtíðinni eða hvort við þurfum bara að gera ráð fyrir því í fjárlögum framtíðarinnar að eiga fyrir slíku komi til þess. Þetta eru vangaveltur. Það er allt í lagi að velta því upp því að að sjálfsögðu vitum við ekki hvað framtíðin ber í skauti sér. Erum við hugsanlega að selja frá okkur þarna einhvers konar auðlind? Það er annað sem þarf að spyrja sig að.

Sjálfstæðisflokkurinn hefur hingað til, þótt fáir trúi því reyndar lengur, talað fyrir skattalækkunum. Undir forystu Sjálfstæðismanna á síðasta ári var fjármagnstekjuskattur hækkaður. Því var líka lofað þá að endurskoða skattstofninn og ég fæ ekki séð, ekki frekar en flutningsmaður 3. minni hluta, að ætlunin sé að standa við það loforð. Kannski kemur það síðar á árinu, á næsta ári eða á kjörtímabilinu, í það minnsta er því ekki lofað hér. Þetta er röng stefna, held ég. Þegar skuldir ríkisins lækka hratt ætti að huga að að lækkun skatta á fólk og fyrirtæki í stað þess að stækka báknið og gera þar með slíka lækkun erfiðari þegar fram líða stundir.

En áfram skal haldið. Þótt það komi ekki til kastanna fyrr en árið 2020 er búið að boða — ég held að það sé komið inn í þingið, eða hvort það er í samráðsgáttinni — frumvarp um þjóðgarðastofnun. Gert er ráð fyrir að það komi til kastanna 2020 þannig að við fjárlagagerð næsta árs munum við fjalla um fjármuni til þessarar nýju stofnunar, sem stækkar þá báknið enn meira. Gaman verður að sjá hvort það fljúgi í gegnum alla ríkisstjórnarflokkana.

Tryggingagjaldið er oft nefnt. Það er í raun afar ósanngjarn skattur sem leggst mjög misþungt á fyrirtæki. Fyrirtæki sem t.d. eru í mikilli þjónustu, eru með margt starfsfólk, greiða hlutfallslega hærra gjald en þau sem eru með fátt starfsfólk. Það er mikill munur á því að reka þjónustufyrirtæki í sjávarútvegi eða auglýsingastofu eða stóriðju með fáu starfsfólki miðað við veltu. Ríkisstjórnin segist ætla að lækka tryggingagjaldið um 0,25% en samt skilaði þessi skattur, eins og fram kemur í áliti 3. minni hluta, meiri fjármunum í ríkissjóð en á síðasta ári og er það vegna hækkunar launa. Því vaknar sú spurning hvort þessi litla lækkun mæti þeim launahækkunum sem orðið hafa. Er raunverulega verið að lækka kostnað fyrirtækjanna? Það er það sem stendur upp úr hjá mér. Er ekki nær að lækka tryggingagjaldið enn meira eins og Miðflokkurinn leggur til, og er í breytingartillögu 3. minni hluta, og reyna þannig að hvetja fyrirtæki til að ráða frekar fólk og fara í frekari fjárfestingar?

Ég nefni kolefnisskattinn, enn einn skattinn sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur stutt. Nú á að hækka hann. Áætlað er að sá skattur skili tæpum 6 milljörðum og hefur hann þá hækkað um 50% frá árinu 2017. Þessar skattahækkanir eru raunar alveg ótrúlegar, ekki síst þegar við höfum flokk sem farið hefur með fjármálaráðuneytið árum saman og er í raun að berjast fyrir skattahækkunum.

Orkuskipti tengjast þessu, fallegt orð og lýsandi og sumpart hefur ágætur árangur náðst. Ég ætla að leyfa mér að nefna sjávarútveginn sem dæmi. Þar hafa fyrirtæki lagt sig fram við að mæta áskorununum, t.d. með nýjum og sparneytnari skipum sem menga minna. Hefur sú atvinnugrein verið til fyrirmyndar þegar að því kemur. Sjávarútvegurinn borgar kolefnisskatt. Það er enn einn þáttur í ójafnvæginu sem greinin á við að etja. Þegar hún er að keppa við ríkisstyrktan sjávarútveg, t.d. í Noregi eða Rússlandi, gerist samkeppnin, eðlilega, enn skakkari. Ekki er nóg með að verið sé að greiða kolefnisgjald heldur er líka verið að greiða veiðigjöld sem eru mjög há fyrir marga og leggjast misþungt á atvinnugreinina — óskaplega ósanngjarn skattur eins og hann er lagður á og full ástæða til að endurskoða hann.

Ég held að það sé lag að fara í þá vinnu, eins og komið hefur fram í þingsályktunartillögum sem hv. þm. Sigurður Páll Jónsson er 1. flutningsmaður að, að meta auðlindirnar, skilgreina þær og velta því fyrir okkur hvort við ætlum að leggja auðlindagjald á eða ekki. Eigum við ekki að leggja slíkt gjald á allar auðlindir? Með hvaða hætti? Mín persónulega skoðun er sú að best sé að nota skattkerfið, vera með aukaskattprósentu á þá sem nýta skilgreindar auðlindir. Þegar vel gengur borga menn meira og ef illa gengur borga menn minna.

Kolefnisskatturinn, eins og komið hefur fram, leggst misþungt á landsmenn. Hann leggst þyngra á landsbyggðina en aðra vegna þess að þar þurfa bæði fyrirtæki og heimili að nota olíu og bensín meira — rannsóknir hafa sýnt það — en aðrir. Landbúnaður er þar ekki undanskilinn og er mjög mikilvægt að sú atvinnugrein geti keppt, í því umhverfi sem hún er í í dag, við innfluttar afurðir; ég tala nú ekki um ef við ætlum að hleypa hráu kjöti óheft inn í landið. Afstaða ríkisstjórnarinnar til landbúnaðarins hefur í besta falli verið óvænt því að þar er einhvern veginn alltaf á tali þegar verið er að reyna að fá svör varðandi landbúnaðinn. Kolefnisskatturinn er röng stefna. Skatturinn, sem Sjálfstæðisflokkurinn vill hækka, leggst misjafnt á atvinnugreinar og íbúa landsins. Þetta er vitlaus skattur, ekki síst í ljósi þess að ríkisstjórnin hefur ekki hugmynd um hvort hann skili árangri. Þess vegna er ágætt að velta þessari spurningu upp: Er það þannig að þessi skattur skili einhverju? Í fyrirspurn hér í þinginu upplýsti umhverfis- og auðlindaráðherra að það er allsendis óvíst hvort skatturinn skili árangri varðandi loftslagsmálin. Hann er því ekkert annað en aukatekjustofn fyrir ríkið. Þarna er verið að leggja á aukaskatt og áhugavert að sjá að Sjálfstæðismenn og aðrir eru áhugasamir um að hækka hann áfram. Ef ætlunin er hins vegar að hvetja landsmenn til að skipta yfir í rafmagnsbíla, ef við tökum það dæmi, væri miklu betra, að mínu viti, að taka upp jákvæða hvata. Á árinu 2017 voru fluttir inn 415 rafbílar, þ.e. nýskráðir. Það sem af er ári, samkvæmt þeim upplýsingum sem ég fékk í dag, er búið að skrá í kringum 544 bíla. Það er því freistandi að velta því fyrir sér hvort ekki sé nær að vera með jákvæðan hvata, eins og t.d. endurgreiðslu á hluta af kaupverði á þessum bílum. Það mætti hugsa sér 200.000 kr. á bíl, svo að dæmi sé tekið. Vissulega kostar það rúmar 100 milljónir, miðað við þær tölur sem ég nefndi hér, en á móti geturðu mælt árangurinn og þú sérð þá hver afraksturinn verður og markmiðið verður líka ljóst. Í dag er markmiðið óljóst og árangurinn veit enginn um. Ekki má heldur gleyma því, eins og fram kemur í áliti 3. minni hluta, að þessi hækkun á sköttum mun fara beint út í verðlagið og mynda verðbólguþrýsting.

Í nefndaráliti 3. minni hluta er lagt til að áfram verði hægt að nýta séreignarsparnað til íbúðarkaupa og niðurgreiðslu íbúðalána. Ég tek undir það og mig langar að nota tækifærið til að hvetja meiri hlutann, og í raun okkur öll, til þess að reyna að framlengja þetta ákvæði sem á að renna út nú í sumar þannig að það geti nýst eitthvað lengur. Í raun er lagt til í áliti 3. minni hluta að þetta verði ótímabundið en ég veit að það er allt til skoðunar. En við þurfum, held ég, að framlengja þetta.

Fjallað er um eldri borgara og kjör þeirra í nefndarálitinu og bent á að kjör eldri borgara, eða lífeyrisgreiðslur, fylgi ekki launaþróun eins og gert er ráð fyrir í 69. gr. laga um almannatryggingar. Þessi hópur samborgara okkar er búinn að strita og vinna og gera samfélagið tilbúið fyrir okkur hin og það er sjálfsagt að þetta fólk geti unnið áfram. Hv. þm. Þorsteinn Sæmundsson hefur talað fyrir því að atvinna eigi ekki að skerða greiðslurnar. Það er það sem við viljum sjá, við viljum að fólk geti nýtt góða heilsu og unnið. Það er engin skylda, að sjálfsögðu, en ég held að það sé líka hluti af góðri heilbrigðisstefnu að þeir eldri borgarar sem eru hressir og treysta sér til að vinna hluta úr degi, eða allan daginn þess vegna, geti gert það, geti verið í samskiptum við fólk og glatt okkur hin.

Ýmislegt annað er fjallað um í þessu áliti. Það er fjallað um ríkisbáknið sem er að stækka og áhugaleysi um landbúnaðinn er gagnrýnt. Talað er um niðurskurð til hjúkrunar- og dvalarheimila, að brýnt sé að efla heimilisþjónustu. Það er talað um SÁÁ sem við erum öll sammála um að þurfi að styðja enn betur, um veiðigjöld, gjaldskrárhækkanir o.s.frv., þar á meðal kennitöluflakk. Ég ætla ekki að fara dýpra í það að þessu sinni heldur fara aðeins yfir í utanríkismálin.

Eins og fram kom í upphafi máls míns eru það að mínu viti óboðleg vinnubrögð að nefndir Alþingis fái ekki þessi mál til umfjöllunar, að utanríkismálanefnd fái t.d. ekki rammann eða kaflann um utanríkismál til að ræða ofan í kjölinn. Mun ég nefna nokkur dæmi hér á eftir varðandi það. Ég tek það líka á mig, hæstv. forseti, og hafi ég samþykkt þessar reglur og þessa aðferð einhvers staðar er hún jafn vitlaus fyrir því. Þessu þarf að breyta til þess að umfjöllun verði betri og vandvirknin meiri hér í á Alþingi og til þess að þingið hafi í alvöru eitthvað um málið að segja. Þá er ég ekki að kasta neinni rýrð á fjárlaganefnd sem ég held að hafi unnið mjög gott starf og ég held að full ástæða sé til að þakka formanni hennar, sem situr hér í salnum, ágætisvinnu.

Utanríkisþjónustan er útvörður landsins. Því miður er hún oft og iðulega mjög vanmetin. Þar vinnur tiltölulega fátt fólk þó að mörgum finnist það mjög kostnaðarsöm útgerð sem við erum með þar. Við erum með tiltölulega fátt fólk en afar fært til að gæta hagsmuna okkar. Þeirra starfsvöllur er heimurinn allur — nema Ísland. Það er ekkert smávinnusvæði ef við veltum því fyrir okkur. Ég held að full ástæða sé til að halda áfram því sem við byrjuðum á á árunum 2008–2016, að reyna að opna betur og útskýra hvað verið er að gera í utanríkisþjónustunni.

Útgjaldaramminn vex um rúman milljarð, eins og fram kemur í kaflanum um utanríkismál. Þar kemur fram að m.a. er verið að efla framkvæmd EES-samningsins og hækka rekstrarframlag þróunarsamvinnu. Þá eru 300 milljónir vegna aukinna verkefna utanríkisþjónustu stjórnsýslu. Ég velti fyrir mér og sé ekki, hef alla vega ekki enn séð, kannski hefur mér yfirsést það, hvernig þessar 300 milljónir skiptast. Í hvað fara þessir peningar? Hvert fara 300 milljónirnar sem þarna er verið að bæta í?

Síðan er það þróunarsamvinnan — og ég ítreka að kannski hefur það farið fram hjá mér — en á fundi utanríkismálanefndar um daginn kom fram að verið sé að stofna ákveðinn sjóð sem eigi að virka þannig að fyrirtæki á einkamarkaði geti sótt um fjármagn sem tengist einhvers konar þróunarsamvinnu. Ef þau eru með hugmynd að verkefni geta þau sótt um í þennan sjóð, fengið fjármuni og farið með verkefnið af stað í löndum sem eru þá á skrá þessa sjóðs. Ef ég man rétt er hugmyndin sú að þetta séu um 17 lönd, þ.e.17 lönd þar sem Ísland er með einhvers konar starfsemi. — Nú kemur hæstv. forseti í salinn og ég var búinn að lofa að tala ekki lengi þannig að ég ætla að herða mig aðeins.

Hvaðan koma þær 400 milljónir sem eiga að vera í þessum sjóði? Ég fæ ekki séð að nein útlistun sé á því í kaflanum um utanríkismál. Í raun finn ég hvergi hvaðan þessir fjármunir eiga að koma. Það er ein af þeim spurningum sem ég hefði áhuga á að fá svör við. Síðan er gert mikið úr því að verið sé að hækka þróunarsamvinnu úr 0,26, held ég, í 0,28. Það er ekkert útskýrt hvaðan peningarnir koma. Eru þetta einfaldlega nýir útreikningar, nýjar aðferðir? Eða hvað er þar að baki? Það er hins vegar áhugavert að sjá að aukning er í uppbyggingarsjóð EES. Hér eru til þingræður þar sem hæstv. ráðherra hafði þá skoðun að það væru peningar sem ekki ættu að fara þangað því að um væri að ræða þróunaraðstoð til Evrópusambandsins og ætti að nota á aðra staði. En ég held að annar skilningur sé kannski kominn á því núna.

Í breytingartillögum meiri hlutans er síðan lagt til að í heildina komi 95 milljónir vegna setu okkar í mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna, hvort það eru 30 milljónir á þessu ári en 65 árið 2019. Það er mjög fínt og flott að sitja í þessu mannréttindaráði en á sama tíma höfum við skorið niður og lokað mannréttindaskrifstofu okkar í Vín þar sem við erum ekki lengur með sendiráð og sendiherra. Við erum með starfsemi, mjög færan og góðan starfsmann, en þar er búið að draga mjög saman til að spara. Við höfum heldur ekki sinnt skyldum okkar í Strassborg og var þó búið að tryggja fjármagn til þess að opna þar á árinu 2016 og þar er líka eitt helsta vígi mannréttinda. En við getum sett 95 milljónir í mannréttindaráð Sameinuðu þjóðanna. Mér finnst það ákveðin hræsni, hæstv. forseti, að berja sér á brjóst og tala um mannréttindi með þessum hætti á sama tíma og við sinnum þeim ekki þar sem við eigum að vera að sinna þeim.

Ég ætla aðeins að fara yfir þær upplýsingar sem ég hef óskað eftir að fá í utanríkismálanefnd. Ég geri ráð fyrir að fá eitthvað af þeim í það minnsta á miðvikudaginn. Þá get ég nýtt mér þær milli umræðna. Við eigum t.d. að geta fengið sundurliðun á útgjaldaliðum og samanburð nokkur ár aftur í tímann. Ég bað um að fá samanburð aftur til ársins 2015 svo að við hefðum einhver ár til að bera saman þessa útgjaldaliði. Ég hef líka óskað eftir nákvæmri sundurliðun á framlögum til þróunarsamvinnu, bæði tvíhliða og marghliða. Hugmyndin er að reyna að sjá hvar breytingar eru. Þetta er að sjálfsögðu eitthvað sem hefði átt að leggja fyrir utanríkismálanefnd þar sem menn geta þá haft skoðun á þessum liðum í fjárlagafrumvarpinu. Ég hef farið yfir sjóðinn vegna viðskiptatengdrar þróunarsamvinnu. Mikilvægt er að það verði upplýst hvaðan þeir peningar koma. Ég hef líka óskað eftir upplýsingum um kostnað næsta ár vegna framboðs Íslands til UNESCO. Ef ég man rétt eru tölur nefndar í fjárlagafrumvarpinu. En hver er heildarkostnaðurinn við það framboð? Og hvers vegna UNESCO? Það eru aðrar alþjóðlegar stofnanir á vegum Sameinuðu þjóðanna sem eiga að mínu viti — ég tek fram að það er mín persónulega skoðun — meira erindi við Ísland og eru tengdari þeim framlögum sem við höfum veitt í þróunarsamvinnu. Þá á ég t.d. við stofnanir sem tengjast jarðhita eða landgræðslu — ég tala nú ekki um jafnréttismálin eða sjávarútveginn. Þetta eru þau fjögur helstu markmið sem við höfum verið með í samstarfi, t.d. við Háskóla Sameinuðu þjóðanna, sem ákveðin breyting er reyndar að verða á. Það breytir því ekki að þarna hefur áhersla okkar verið. Þá erum við allt í einu að setja fullt af peningum í framboð til UNESCO í staðinn fyrir að nota fjármunina á þeim stöðum þar sem við erum klárlega að gera vel og erum hvað best. Mér finnst það mjög undarlegt.

Ég hef líka óskað eftir samanburði á kostnaði við rekstur sendiráða og sendiskrifstofa nokkur ár aftur í tímann. Síðan er eitt sem ég fæ alla vega ekki lesið út úr þessum pappírum í fjárlagafrumvarpinu — ég segi enn og aftur að kannski er það mín yfirsjón: Hvað kosta þessir nýju heimasendiherrar sem búið er að setja á fót? Ég held að hugsunin sé ágæt en mig langar að fá að vita hvernig þeim verður gert að rækja starf sitt. Hversu miklir fjármunir eru ætlaðir í þessa sendiherra? Hversu mikið geta þeir sinnt starfi sínu? Segjum sendiherra sem er með einhver lönd í Mið-Evrópu, Asíu eða Suður-Ameríku, hve vel getur hann sinnt störfum sínum? Er verið að spara gríðarlega mikla fjármuni með því að færa þetta heim eða er verið að skerða þjónustuna við þessi ríki? Eða hver er niðurstaðan?

Ég hef einnig óskað eftir sundurliðun á framlögum til varnarmála, þar með talið öllum samningum sem snerta þann lið. Það er áhugavert í því samhengi að nefna svar við fyrirspurn hv. þm. Andrésar Inga Jónssonar. Þar kemur í ljós að á Keflavíkurflugvelli hafa liðssveitir verið viðvarandi undanfarin ár, sem ég hef ekkert á móti í sjálfu sér en er áhugavert í ljósi ríkisstjórnarsamstarfsins með Vinstri grænum. Ég hef líka óskað eftir sundurliðun á framlögum til alþjóðastofnana og annarra stofnana, svo að nokkur dæmi séu talin upp.

Virðulegur forseti. Ég er búinn að skauta býsna létt yfir þetta fjárlagafrumvarp. Það er margt sem mætti nefna frekar. Menn hafa rætt hér í dag töluvert mikið um þennan niðurskurð — eða seinkun, hvernig sem við orðum það nú — á framlögum til öryrkja. Ég held að það hafi verið ákveðin mistök hjá ríkisstjórninni að fara í þann leiðangur, hefði verið nær að standa við það. Ef það vantar upp á að klára eitthvert samkomulag er ekki hægt að vísa því á öryrkja.

Hæstv. forseti. Ég læt þessu lokið í bili en að sjálfsögðu mun ég koma hér aftur upp, telji ég þörf á því, og í það minnsta milli umræðna.