149. löggjafarþing — 33. fundur,  19. nóv. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[23:06]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég fagna því sérstaklega hvernig hv. þingmaður og formaður fjárlaganefndar tekur undir áhyggjur mínar. Ég held að þingmaðurinn deili þeim þá með mér og okkur hinum sem höfum áhyggjur af þessu, að við verðum að fá meiri skilning á fjárlögin í nefndunum, svokölluðum fagnefndum eða hvernig við orðum þetta. Umræðan hér verður líka betri.

Það er annað líka, ég held að það sé að mörgu leyti gott fyrir fjárlaganefndina fá umfjöllun. Það þarf ekki að vera djúpt nefndarálit sem kemur frá nefndunum. Það getur hreinlega verið einhvers konar yfirlýsing um að nefndin hafi lokið umfjöllun, eitthvað þess háttar, mögulega einhverjar ábendingar eða hvernig það yrði. En síðan veitir það okkur óbreyttum þingmönnum sem erum ekki í fjárlaganefnd tækifæri til þess að fara dýpra í málin.

Varðandi EES-eflinguna er það vitanlega algjörlega á tæru að ef við ætlum að standa okkur vel, þ.e. í því að vita hvað er að gerast og koma inn í EES-samninginn, þá verðum við að hafa miklu meiri yfirsýn yfir hvað er í pípunum, hvað er að koma og hvað er að gerast. Það gerum við m.a. með því að hafa öflugt fólk á vegum ráðuneytanna fyrr í ferlinu, þá úti í Brussel, að sjálfsögðu. Einnig væri mjög æskilegt ef hagsmunaaðilar gætu haft meiri yfirsýn á fyrri stigum, hugsanlega með einhvers konar viðveru þar erlendis. En þó er það þannig að sem betur fer er ákveðin viðleitni til að reyna að gera þetta ferli skýrara fyrr. Því ber að fagna. Ég er ekki að leggjast gegn því að menn setji fjármuni í að efla umfjöllun eða viðveru gagnvart EES-samningnum. Alls ekki.