149. löggjafarþing — 33. fundur,  19. nóv. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[23:12]
Horfa

Anna Kolbrún Árnadóttir (M):

Hæstv. forseti. Við höfum fjárlögin til umfjöllunar. Það hefur vonandi ekki farið fram hjá neinum að kjör þeirra sem eru aldraðir og hafa minnst milli handanna eru ekki í samræmi við almenn lífskjör í landinu. Þeir sem aðeins hafa lífeyri frá almannatryggingum eru verst settir. Þetta er allt vitað en samt sem áður stendur aðeins til að hækka grunnlífeyrinn um 0,4% á næsta ári. Sannleikurinn er sá að það tekur ekki mið af launaþróun, sem hefur verið um 11%, eins og fram kom í máli hv. þm. Birgis Þórarinssonar, fulltrúa okkar Miðflokksmanna í fjárlaganefnd.

Það væri óskandi að farið væri eftir því sem fram kemur í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar. Staðan er nefnilega sú að þeir sem ekki hafa annað til að framfleyta sér en ellilífeyri almannatrygginga geta ekki beðið og eiga ekki að bíða. Kerfið eins og það er núna er of flókið og við þurfum að ganga í að einfalda það. Hægt væri að telja upp alla þá þætti sem finnast í kerfinu en þeir miða við fyrstu sýn allir að því að skerða réttindi. Kerfið er ekki sniðið fyrir þá sem þurfa á því að halda og æ fleiri hafa áhyggjur af afkomu sinni. Það sjáum við m.a. í tölvupóstum sem okkur berast, sérstaklega þessa dagana.

Við í Miðflokknum höfum ítrekað bent á að koma þurfi til móts við tillögur eldri borgara í þessum efnum, enda skilst mér að þær hafi verið vandaðar. Okkur ber því að taka þær alvarlega. Stjórnvöld hafa ráðrúm til að gera vel og við eigum að sjá til þess að allir hafi tækifæri til að búa við mannsæmandi kjör og ekki síst þessi aldurshópur. Þjóðin er nefnilega að eldast. Samhliða því eru þeir sem eldri eru frískari og vilja þar með vera áfram á vinnumarkaði, enda gera þeir sér vel grein fyrir að þátttaka á vinnumarkaði færir þeim sem það kjósa og geta aukna virkni í daglegu lífi. Einnig er óhætt að halda því fram að það auki lífsánægju að vera virkur í starfi og leik. Það er því grundvallaratriði að þeim sem það kjósa verði gert kleift að vinna enda býr eldra fólk oft að reynslu og þekkingu sem nýtist mörgum og sérstaklega þeim sem yngri eru.

Við í Miðflokknum höfum lagt mikla áherslu á að afnema tekjutengingar vegna launatekna eldri borgara og nú leggjum við fram breytingartillögu þess efnis að atvinnutekjur eldri borgara skerði ekki lífeyrisgreiðslur. Ef við tökum þessa tekjutryggingu út mun það án efa hvetja fólk til að vera lengur á vinnumarkaði — já, eða koma aftur á vinnumarkaðinn — og það er í raun dálítið furðulegt að á meðan skortur er á vinnuafli sé þessi leið ekki farin, enda eiga þeir sem eru eldri fullt erindi á vinnumarkað. Það á ekki að standa í vegi fyrir því að þeir geti að fullu tekið þátt í honum.

Í umræðunni um fjárlagafrumvarpið, sem hér hefur farið fram, hefur hvað mest verið fjallað um frestun á hækkun til öryrkja. Því er haldið fram að sú frestun sé til komin þar sem vinna við kerfisbreytingar gangi ekki eins og lagt var upp með. Það er eiginlega stórfurðulegt að halda eigi áfram vegferðinni með starfsgetumatið og halda því fram að það sé ástæða þess að ekki verður hægt að halda inni þeirri hækkun sem boðuð var. Það er ekkert í hendi sem segir okkur að starfsgetumatið muni virka, enda skilst mér að vinnan sé skammt á veg komin. Í mínum huga þarf ekki að bíða eftir kerfisbreytingunni. Öryrkjar hafa nefnilega ítrekað kallað eftir því að króna á móti krónu skerðing verði afnumin og allflestir þingmenn hafa tekið undir það. Enda er það fyrsta skrefið sem ætti að stíga og ef vilji væri fyrir hendi væri hægt að stíga það nú þegar. Stór hópur er fastur í fátæktargildru og afnema þarf krónu á móti krónu skerðingu. Það er lykillinn. Hugsanlega verður kostnaður ekki svo langt frá þeim 4 milljörðum sem talað er um, alla vega var talað um það upphaflega, og auk þess verða lífsgæði fólks umtalsvert betri. Það þarf að byrja strax. Þetta þarf ákveðinn tíma til að sanna sig. Það þarf að sjá að fólk fari á vinnumarkaðinn. Það þarf að sjá hvað kemur út úr því að gefa fólki þetta frelsi.

Mig langar aðeins að viðra hér reynslu Dana af starfsgetumati sem var innleitt þar, að mig minnir 2012, sem var vond hugmynd. Það var vond reynsla, eftirfylgni var lítil og úrræði fá. Reyndar er reynslan svo slæm að aðeins lág prósenta þeirra sem fóru í gegnum starfsgetumatið hefur fengið viðvarandi starf við hæfi. Það sem þó hefur verið gott við danska kerfið er að áður en starfsgetumatið var innleitt voru til störf með stuðningi, eða það sem við köllum hér á landi atvinnu með stuðningi. Hér er það á vegum Vinnumálastofnunar og mér skilst að það gangi nokkuð vel. En það þarf að bæta í. Í mínum huga á því að hverfa frá því að innleiða starfsgetumatið. Hins vegar eigum við að byrja á því að afnema krónu á móti krónu skerðinguna. Svo þarf að hefja tafarlaust samtal við Vinnumálastofnun og gera henni kleift að standa sem best að verkefninu Atvinna með stuðningi.

Á vef Vinnumálastofnunar eru eftirfarandi upplýsingar, með leyfi forseta:

„Atvinna með stuðningi er árangursrík leið fyrir þá sem þurfa aðstoð við að fá vinnu á almennum vinnumarkaði.

Vinnubrögðin fela í sér víðtækan stuðning við þá sem hafa skerta vinnugetu vegna andlegrar og/eða líkamlegrar fötlunar, aðstoð við að finna rétta starfið og veita stuðning á nýjum vinnustað.“

Þetta á við um einstaklinga með skerta starfsgetu sem þurfa aðstoð við atvinnuleit, þjálfun í starf og stuðning við að halda vinnu á almennum vinnumarkaði.

Einnig er aðstoðað við þátttöku og þjálfun á almennum vinnumarkaði, aðstoð við öflun starfa með sömu réttindum og skyldum og almennt gerist. Færni umsækjanda er höfð að leiðarljósi en ekki fötlunin. Úrræðið er miðað að þörfum einstaklings. Áhersla er á góða samvinnu við atvinnurekendur. Aðstoðað er við að mynda tengsl á vinnustað. Stuðningur varir svo lengi sem þörf er á. Byggt er upp stuðningsnet á vinnustað. Markvisst er dregið úr stuðningi, en vinnuveitandi og starfsmaður hafa þó áfram aðgang að ráðgjafa eftir þörfum.

Í mínum huga er þarna það starfsgetumat sem þarf. Við erum nú þegar með þá umgjörð sem þarf. Við höfum þetta allt og því væri nær að nýta það sem við höfum nú þegar. Við þurfum ekki fleiri starfshópa, þurfum ekki fleiri nefndir. Við þurfum aðeins að taka ákvörðun og fyrsta skrefið að þessu öllu er að afnema krónu á móti krónu skerðingu. Þá fer boltinn að rúlla.

Að þessu sögðu vil ég geta þess að við í Miðflokknum leggjum til breytingartillögu, þó svo að ég hafi viðrað þessa persónulegu hugmynd mína sem hefur verið að mótast í höfðinu á mér. Við leggjum sem sagt fram breytingartillögu við frumvarpið á þann veg að í stað lækkunar á framlögum til öryrkja, að fjárhæð 1,1 milljarður kr., í fjárlagafrumvarpinu verði upprunalega upphæðin látin standa.

Stór hluti framlaga til heilbrigðismála fer í framkvæmdir við nýjan Landspítala en áætlað var í byrjun að verja 7,2 milljörðum til hans. Nú er lagt til að fjárveiting til byggingar sjúkrahúss á lóð Landspítalans verði lækkuð vegna þess að framkvæmdir við gatnagerð og jarðvegsvinnu hófust síðar en gert var ráð fyrir. Einnig frestaðist vinna við meðferðarkjarnann sem er stærsta framkvæmdin. Við í Miðflokknum höfum margsinnis bent á að bygging nýja þjóðarsjúkrahússins við Hringbraut sé óskynsamleg framkvæmd og það sést nú þegar á þessari frestun. Við viljum fyrst staldra við, taka stöðuna strax. Eins og ég sagði áðan hefur orðið frestun á framkvæmdum rétt þegar farið var af stað. Því er eðlilegast að skoða málin og framkvæma faglega staðarvalsgreiningu fyrir nýtt þjóðarsjúkrahús.

Tiltekið er að auka eigi fjármagn vegna hjúkrunarheimila í fjárlagafrumvarpinu. Eftir stendur að ekki er gert ráð fyrir að skapa raunhæf rekstrarskilyrði. Það þarf fyrst og fremst að fara í kostnaðargreiningu og taka þá út þann rekstrarhluta sem er innan heimilanna. Rammasamningur um hjúkrunar- og dvalarrými rennur út um áramótin og ganga viðræður, að mér skilst, mjög hægt. Það þarf því að fara í þessa kostnaðargreiningu þannig að hægt sé að sjá með vissu hvað þarf að hækka, en ljóst er að forgangsraða þarf í þágu hjúkrunarheimila, sérstaklega þá reksturs.

Um stöðu SÁÁ má segja eftirfarandi: Staðan er grafalvarleg. Árið 2018 er framlag ríkisins til meðferðarsviðs SÁÁ lægra en árið 2009 á föstu verðlagi. Það er ljóst að gera þarf betur. Einhverjir hafa haldið því fram að fulltrúar SÁÁ komi alltaf fram á hverju ári og óski eftir frekari fjármögnun. En ástæðan er auðvitað sú að í mörg ár hefur fjármagnið klárast akkúrat í október. Hugsanlega ætti SÁÁ ekki að byrja starfsemi fyrr en í apríl til að þetta lendi ekki alltaf á október. Alla vega ná þeir ekki að halda út árið. Í dag greiðir ríkið einungis fyrir 1.530 innritanir á Sjúkrahúsið Vog af 2.200 árlegum innritunum. Á sama tíma lengist biðlistinn eftir meðferð og nú bíða rúmlega 600 manns. Ég vil líka vekja athygli á því að fjárveitingar til Krabbameinsfélagsins eru skornar niður, sem er mér með öllu óskiljanlegt. Við leggjum til breytingartillögu við fjárlagafrumvarpið um sérstakt aukaframlag til SÁÁ sem og til Krabbameinsfélagsins.

Ég hef aðeins farið yfir nokkra þætti fjárlagafrumvarpsins og þá sérstaklega þær breytingartillögur sem Miðflokkurinn leggur hvað mesta áherslu á. Ég hef ekki sérstaklega nefnt það sem snýr að landbúnaði. Ég hef heldur ekki tekið til lækkun tryggingagjalds eða stöðu heilsugæslunnar um allt land og fleira mætti taka til. Ég treysti því að félagar mínir í Miðflokknum geri þeim málaflokkum sem út af standa hjá mér góð skil.