149. löggjafarþing — 33. fundur,  20. nóv. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[00:13]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Willum Þór Þórsson) (F) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Þorsteini Sæmundssyni fyrir ræðuna. Margar tillögur eru frá sem hv. þingmaður fór yfir og Miðflokkurinn er með, breytingartillögur. Ég ætla ekki að tjá mig neitt sérstaklega um þær.

En hv. þingmaður byrjaði ræðu sína á því að fátækir þyrftu að bíða eftir réttlæti frá ríkisstjórn hæstv. forsætisráðherra, Katrínar Jakobsdóttur. Í upphafi, sama setning: Niðurskurður á velferð í boði Katrínar Jakobsdóttur, hæstv. forsætisráðherra.

Þetta er alveg ótrúlegt. Öðruvísi mér áður brá. Félagshyggjumaðurinn er kominn svo langt af leið að hann sér ekki velferðina í fjárlagafrumvarpinu. Það er alveg með ólíkindum. Hér er verið að auka til þeirra málefnasviða meira en nokkru sinni fyrr. Það er verið að fjárfesta í velferð, verið er að fjárfesta í menntun, verið er að fjárfesta í samgöngum, meira en nokkru sinni fyrr.

Af því að hv. þingmaður talaði um heilbrigðiskerfið, þá er verið að auka verulega í heilbrigðiskerfið og taka utan um það kerfi, verið er að efla heilsugæslu. Verið er að setja í hana 650 millj. kr. hækkun framlags að raungildi og verið er að fylgja eftir geðheilbrigðisáætlun, settar aðrar 650 millj. kr. í það.

Og af því að hv. þingmaður talaði um einhvern biðlistaleka, þá er verið að auki að setja 840 millj. kr. fjárheimild til að gera framkvæmd biðlistaaðgerða varanlega. Það er nú allur lekinn sem hv. þingmaður talaði um.