149. löggjafarþing — 33. fundur,  20. nóv. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[00:15]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Fyrir 12 árum stóð maður í ræðustól á þessu þingi og sagði: Sjáið þið ekki veisluna, drengir? Tveim árum síðar var allt farið hér til heljar eða þar um bil.

Sér ekki félagshyggjumaðurinn velferðina? Í sjálfu sér er ekki verið að lasta það sem þokkalega er gert. Það sem ég benti á er að um 4.000 manns eru nú á opinberum biðlista eftir nauðsynlegum aðgerðum, þar á meðal bráðaaðgerðum. Og þær 840 milljónir, samkvæmt þeim verðlista sem ég var með áðan, fara ekki mjög langt, hv. þingmaður, til að eyða þeim biðlistum eða höggva verulega í þá. Það sem ég átti við með lekanum var að hér er til kerfi, stofnun eða fyrirtæki, sem er til í að taka þátt í því að eyða þeim biðlistum — og ef peningarnir eru til, enn þá betra — með ódýrari hætti en að senda fólk sem verst er farið og mest er þjáð til útlanda í sambærilegar aðgerðir. Það var það sem ég átti við með leka í kerfinu.

Ríkisstjórn sem getur hugsað sér að senda fólk til útlanda í aðgerðir sem kosta tvöfalt eða rúmlega það á við það sem hægt er að fá við að gera þær hér heima, út af einhverri þversköllun við því í hvaða höndum fyrirtækið er sem framkvæmir aðgerðirnar, þá er illa farið.

Ég sé enga velferð í því að menn nýti ekki fjármunina sem eru af skornum skammti eftir því sem hv. þingmaður segir og ég veit það vel, ég get komið inn á það í seinna andsvari mínu af hverju þetta fé er af skornum skammti. En hvers vegna þá ekki að nýta það eins vel og hægt er, hv. þingmaður?