149. löggjafarþing — 33. fundur,  20. nóv. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[00:19]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Takk fyrir svarið. Hv. þingmaður getur alveg hengt það um hálsinn á mér að ég hafi samþykkt lög um opinber fjármál á sínum tíma, sem er líklega eitt mesta valdaafsal frá þessari stofnun til framkvæmdarvaldsins nokkru sinni, og það getur vel verið að ég lifi til að sjá eftir því að hafa nokkurn tíma gert það, en það kemur þá bara í ljós.

En ég hef í hyggju að taka þetta andsvar hv. þingmanns um allar prósenturnar og spila það fyrir fólkið á biðlistunum, vita hvort það verður eitthvað líknandi fyrir það að liggja heima í þjáningu og hlusta á það, vegna þess að þetta gerir ekki gagn.

En það er náttúrlega eitt í þessu, herra forseti, og það er kannski lykillinn að þessu öllu. Ríkisstjórn, sem treystir sér til að láta heilan banka í hendur útlendra vogunarsjóða í staðinn fyrir að yfirtaka hann eins og hægt hefði verið að gera og gera sér verulegan pening úr, á nóg af peningum og þarf ekkert að spara neina peninga.

Ég ætla að benda hv. þingmanni á að fylgjast vel með fréttum á næstu vikum þegar stærsta eign Arion banka, Valitor, verður seld út úr félaginu fyrir líklega fimmfalt bókfært verð, ráðstöfun sem hefði getað komið íslensku þjóðinni til gagns og gæða ef menn hefðu staðið í lappirnar og hirt bankann á sínum tíma eins og þeir gátu. En í staðinn fyrir að lappa upp á ríkissjóð mun þessi gjörningur, sem mun fara fram á næstu vikum, hjálpa vogunarsjóðum en ekki ríkissjóði. Það er nú bara þannig. Og þetta er tillaga sem við fluttum fyrir ári síðan, við Miðflokksmenn, um hvernig væri hægt að hámarka þessi gæði fyrir ríkissjóð. Og þarna erum við ekki að tala um neitt smotterí og ekki nein 0,3% eða eitthvað svoleiðis. Við erum að tala um tugi milljarða króna sem menn voru til í að láta lausa við vogunarsjóði úti í heimi í staðinn fyrir að láta ríkissjóð njóta þess. Og við erum kannski að súpa seyðið af því nú.