149. löggjafarþing — 34. fundur,  20. nóv. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[15:59]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir fína ræðu, yfirgripsmikla og skýra. Ég vil þakka sérstaklega fyrir að ákveðin mynd var dregin upp sem var skýr, skýrari en til að mynda sú sem hefur verið dregin upp af hæstv. ríkisstjórn í næstum heilt ár. Það voru a.m.k. svör við ákveðnum spurningum sem maður fékk í þeirri fínu ræðu.

Ég vil spyrja hv. þingmann Sigmund Davíð Gunnlaugsson. Það tengist m.a. því sem ég vil eindregið taka undir með honum, að þetta er útgjaldaríkisstjórn án markmiðs. Ég held að við deilum því bæði að við viljum öflugt velferðarkerfi, öflugt menntakerfi, samgöngukerfi, en við verðum að vita hvernig við nýtum fjármunina hverju sinni.

Ég og hv. þingmaður erum saman á máli sem tengist heilbrigðismálum varðandi það hvernig við getum aukið lífsgæði fólks sem hefur verið á biðlistum. Í rauninni er svo komið að það myndast biðlistar til að komast á biðlista, til að fara á hinn endanlega opinbera biðlista ráðuneytisins eða undirstofnana þess. Mig langar að spyrja hv. þingmann, af því að ég held að við séum bæði, og vil leyfa mér að fullyrða það, algjörlega andsnúin tvöföldu heilbrigðiskerfi: Deilir hann þeim áhyggjum með mér að með þeirri vegferð sem hæstv. heilbrigðisráðherra er á sé verið að byggja undir tvöfalt heilbrigðiskerfi, með þeirri leið sem hæstv. ráðherra er að fara? Sér hann fram á að með því að hafa aukið valfrelsi og fjölbreyttari leiðir í heilbrigðismálum munum við þvert á móti styrkja líðan hins almenna borgara í samfélaginu og ýta undir öflugra, sterkara heilbrigðiskerfi?