149. löggjafarþing — 35. fundur,  21. nóv. 2018.

störf þingsins.

[15:08]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Herra forseti. Ég hef áður gert hið hryllilega ástand í Jemen að umtalsefni úr þessum ræðustól. Það bitnar hvað mest á börnum. Ástandið er bein afleiðing innrásar Sádi-Araba og bandamanna þeirra sem blönduðu sér í áralanga borgarastyrjöld í landinu. Rétt er að hafa í huga að aðgerðir þessar hafa notið pólitísks stuðnings Vesturlanda.

Staðan er þannig að um 75% íbúa landsins, eða ríflega 22 milljónir manna, hafa bráða þörf fyrir mannúðaraðstoð. Þrjár milljónir eru á flótta innan lands og þorri þjóðarinnar býr við vannæringu. Á tíu mínútna fresti deyr barn í Jemen af orsökum sem hægt væri að fyrirbyggja. Meira en 11 milljónir barna í Jemen þurfa á lífsnauðsynlegri hjálp að halda. Nánast hvert einasta barn í landinu.

Mig langar að nota þennan ræðustól til að fagna því að í síðustu viku var ákveðið að utanríkisráðuneytið myndi verja 100 milljónum kr. í neyðaraðstoð í Jemen. Framlagið skiptist jafnt milli tveggja stofnana Sameinuðu þjóðanna sem eru í landinu og sinna neyðaraðstoð, annars vegar til Matvælaáætlunar Sameinuðu þjóðanna og hins vegar til Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna eða UNICEF. Þetta er gríðarlega mikilvægt.

Við skulum samt muna að hömungarnar í Jemen eru ekki náttúruhamfarir, þær eru af manna völdum. Hjálpum fólkinu í Jemen með neyðaraðstoð — en beitum jafnframt öllum þeim þrýstingi sem unnt er til að fá bandalagsþjóðir okkar til að hætta að róa undir með ófriðnum. Þar er ábyrgð Bandaríkjastjórnar hvað mest. Þetta getum við þingmenn allir gert, m.a. í því alþjóðasamstarfi sem við tökum þátt í. (Forseti hringir.) Þar eigum við að leggja okkar af mörkum og tala fyrir friði og uppbyggingu en ekki áframhaldandi stríðsrekstri.