149. löggjafarþing — 35. fundur,  21. nóv. 2018.

störf þingsins.

[15:31]
Horfa

Pawel Bartoszek (V):

Virðulegur forseti. Ég má til með að byrja á því að mótmæla orðum hv. þm. Þórunnar Egilsdóttur hér áðan. Ég veit ekki betur en minn flokkur hafi, í umræðunni um fjármál ríkisstjórnarinnar, gagnrýnt skort á aðhaldi og það lýsir sterkri pólitískri sýn. Ég vil heldur ekki meina að það sé eitthvað sem er sérstaklega ætlað til vinsælda. Ég hafna því þeim orðum sem sögð voru hér í ræðustól rétt áðan.

Ég ætla að ræða aðeins um húsnæðismál. Mikið hefur verið rætt um stöðuna á húsnæðismarkaði og henni lýst með orðum eins og neyðarástand. Neyðarástand kallar gjarnan á neyðarviðbrögð. Fólk fer kannski að hugsa: Á ekki bara að hætta þessari þéttingu, byggja hratt, einfalt, langt í burtu frá öllu í byggð sem truflar engan? Slíkar ákvarðanir hafa verið teknar áður og svo höfum við þurft að sitja uppi með þær.

Staðreyndin er hins vegar sú að það vilja rosalega margir byggja. Verktakar vilja byggja, verkalýðsfélög vilja byggja, búseturéttarfélög vilja byggja, félög eldri borgara vilja byggja, félög stúdenta vilja byggja og margir einstaklingar vilja líka byggja. Og það er verið að byggja; 1.300 byggingarleyfi hafa verið gefin út í Reykjavík það sem af er ári og það er met. Seinast, þegar Samtök iðnaðarins mældu voru 4.000 íbúðir í byggingu á höfuðborgarsvæðinu öllu. Auðvitað mætti gera betur og hraðar en það er samt staðreynd að það er stuð á þessum markaði. Húsnæðisvandinn varð nefnilega ekki til í dag. Hann varð til árið 2009, 2010, 2011 og 2012, þegar allt var stopp.

Ef ég á að beina einhverju til ríkisvaldsins og þeirra ráðherra sem sitja þá er það það að hlutverk ríkisins er að tryggja að við endurtökum ekki þessi mistök. Það þarf ekki endilega að blása í núna, heldur þarf að tryggja tvennt. Í fyrsta lagi að ekki verði allt stopp næst þegar hægist um hér í þjóðfélaginu og það þarf að halda áfram að losa lóðir til uppbyggingar eins og ríkið hefur gert með ágætisárangri á Veðurstofureit og fleiri stöðum. Mér verður sérstaklega hugsað til einnar stórrar lóðar hér suður frá, sem getur vel hýst meiri byggð þegar á líður.