149. löggjafarþing — 35. fundur,  21. nóv. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[19:31]
Horfa

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf):

Herra forseti. Ég ætla bara að vekja athygli þingmanna og hugsanlega þjóðarinnar á því að ríkisstjórnarflokkarnir hafa fellt hér hverja einustu tillögu stjórnarandstöðunnar, sem sumar hverjar voru meira að segja fluttar af einstaka þingmönnum stjórnarflokkanna. Hér hefur verið kallað eftir nýjum vinnubrögðum, ekki síst frá Vinstri grænum, og þeir detta í nákvæmlega sömu skotgrafirnar og þeir gagnrýndu þegar þeir voru hinum megin við borðið. Það var ekki ein einasta tillaga sem hlaut hljómgrunn hjá þessum flokkum. Sjónvarpssjóðurinn, hann var felldur, ætti að vera þverpólitískt mál. Það mátti ekki setja örlitla viðbót í hjúkrunarheimilin fyrir eldri borgara, mátti alls ekki standa við loforð við öryrkja. Það var meira að segja ekki einu sinni hægt að fá stjórnarflokkana til að senda aukna neyðaraðstoð til barna í Jemen. Ég skil ekki þessi vinnubrögð. Ég skil ekki af hverju við getum ekki komist upp úr þeim gamaldags vinnubrögðum að allt sem kemur frá stjórnarandstöðunni eigi stjórnarflokkarnir átómatískt að fella. Mér finnst að þingmenn stjórnarflokkanna eigi að skammast sín fyrir þetta, (Forseti hringir.) því að ég veit að þeir hafa margir hverjir kallað eftir að við komumst upp úr þessum förum sem hér eru því miður aftur og aftur staðfest. Þetta er ekki góður dagur fyrir þingið. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)