149. löggjafarþing — 36. fundur,  22. nóv. 2018.

endurmat á hvalveiðistefnu Íslands.

47. mál
[17:02]
Horfa

Flm. (Jón Steindór Valdimarsson) (V):

Herra forseti. Ég mæli fyrir tillögu til þingsályktunar um endurmat á hvalveiðistefnu Íslands. Að tillögunni standa ásamt þeim sem hér stendur, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, Guðmundur Andri Thorsson, Hanna Katrín Friðriksson, Sara Elísa Þórðardóttir, Inga Sæland, Þorsteinn Víglundsson, Þórhildur Sunna Ævarsdóttir og Logi Einarsson. Allt hv. þingmenn.

Tillagan hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að fela forsætisráðherra að endurmeta hvalveiðistefnu Íslendinga og greina þjóðhagslegt mikilvægi veiðanna. Við matið verði m.a. horft til hagsmuna atvinnugreina eins og ferðaþjónustu og sjávarútvegs og tillit tekið til vísindarannsókna, dýraverndarsjónarmiða og hagsmuna sveitarfélaga. Ráðherra leggi niðurstöður endurmatsins fyrir Alþingi til kynningar fyrir 1. mars 2019.“

Tillaga sama efnis var áður flutt á 148. löggjafarþingi en ekki náðist að mæla fyrir henni. Á sama löggjafarþingi voru lagðar fram fyrirspurnir um hvalveiðar til forsætisráðherra, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, ferðamála-, iðnaðar og nýsköpunarráðherra og umhverfis- og auðlindaráðherra.

Í svari við þessum fyrirspurnum kemur m.a. fram að frá og með hausti 2018 þurfi að taka nýja ákvörðun um framhald hvalveiða bæði með hliðsjón af samfélagslegum og efnahagslegum áhrifum. Vísar forsætisráðherra til þess að fram þurfi að fara raunverulegt mat sem byggist á hugmyndafræði sjálfbærrar þróunar og skoða hvort eðlilegt sé að halda áfram hvalveiðum við strendur Íslands eða ekki.

Í svari sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra kemur fram að nytsamlegt væri að hafa nýrra faglegt mat á víðari áhrifum hvalveiða en það sem nú liggur fyrir og er frá 2010 og vikið verður að síðar. Hefur ráðherra óskað eftir því við Hagfræðistofnun Háskóla Íslands að hún uppfæri skýrslu sína. Einnig hefur sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra óskað eftir því að Hafrannsóknastofnun geri úttekt á fæðuþörf hvala og vægi þeirra í lífríki sjávar hér við land, þar með talið á áhrifum hvala á fiskstofna við Ísland.

Í svari ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra kemur fram að ráðherra sé ekki kunnugt um að með hvalveiðum sé meiri hagsmunum fórnað fyrir minni og hefur ráðherra falið Hagfræðistofnun Háskóla Íslands að gera úttekt á þjóðhagslegu mikilvægi hvalveiða og áhrifum þeirra á aðrar atvinnugreinar. Þá vísar ráðherra til þess að endurmat á hvalveiðum fari fram þegar núverandi fimm ára veiðitímabili lýkur við lok árs 2018.

Umhverfis- og auðlindaráðherra vísar sömuleiðis til þess að ákveðið hafi verið að ráðast í úttekt á því hvaða áhrif hvalveiðar hafa efnahagslega á fleiri atvinnuvegi.

Herra forseti. Markmiðið með þessum tillöguflutningi er að fá hvalveiðistefnu Íslendinga endurmetna út frá nýjustu upplýsingum um áhrif og mikilvægi veiðanna. Í mars 2010 gaf Hagfræðistofnun Háskóla Íslands út skýrslu um þjóðhagsleg áhrif hvalveiða. Þar kom m.a. fram að þjóðhagslega hagkvæmt teldist að halda hvalveiðum áfram. Sá fyrirvari var þó gerður í skýrslunni að niðurstöður hennar gæti þurft að endurmeta síðar út frá nýjum upplýsingum um ferðaþjónustuna, virði umhverfisgæða fyrir Íslendinga eða ímynd þjóðarinnar út á við.

Frá því að skýrslan var gefin út, fyrir átta árum, hefur hlutur ferðaþjónustunnar í landsframleiðslu ríflega tvöfaldast, nýrra gagna hefur verið aflað um arðsemi hvalveiða sem atvinnugreinar ásamt því að 28 ríki Evrópusambandsins, Bandaríkin, Ástralía, Brasilía, Ísrael, Mexíkó, Mónakó og Nýja-Sjáland hafa afhent íslenskum stjórnvöldum sameiginlega yfirlýsingu þar sem hvalveiðum Íslendinga í atvinnuskyni er mótmælt. Verður því að telja að nú séu forsendur til endurmats á þeim grundvelli sem kveðið var á um í skýrslu Hagfræðistofnunar.

Í nóvember 2012 var skipuð nefnd á vegum atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins til að yfirfara löggjöf á sviði sjávarspendýra og setja fram tillögur að stefnumörkun. Á 143. löggjafarþingi var sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra spurður um stöðu þeirrar vinnu. Í svari ráðherra kom fram að nefndin hefði fundað átta sinnum frá nóvember 2012 til maí 2013 en ekki skilað lokaskýrslu og væri vinna nefndarinnar því í biðstöðu. Það að nefndin hafi ekki skilað lokaskýrslu og lagt fram tillögur um stefnumörkun á skipunartíma sínum rennir enn frekari stoðum undir það að tímabært sé að endurmeta hvalveiðistefnu Íslendinga í ljósi nýrra tíma.

Flutningsmenn gera ráð fyrir að við endurmat stefnunnar verði m.a. litið til breytinga á atvinnuháttum Íslendinga, hagsmuna útflutningsgreina í sjávarútvegi, landbúnaði og ferðaþjónustu, dýraverndarsjónarmiða, hagsmuna sveitarfélaga og vísindalegrar ráðgjafar Hafrannsóknastofnunar. Þá verði gerð grein fyrir umfangi hvalveiðanna, verðmæti afla, fjölda starfa innan greinarinnar og útflutningstekna þjóðarinnar í samanburði við helstu atvinnugreinar landsins eins og sjávarútvegs, landbúnaðar, ferðaþjónustu og iðnaðar.

Að þessu sögðu vil ég leyfa mér, herra forseti, að mæla með því að þingsályktunartillaga þessi gangi til meðferðar hjá hv. atvinnuveganefnd og til síðari umr. Vonast ég til að málið fái þar góðan framgang og vandaða umfjöllun.