149. löggjafarþing — 36. fundur,  22. nóv. 2018.

endurmat á hvalveiðistefnu Íslands.

47. mál
[17:12]
Horfa

Flm. (Jón Steindór Valdimarsson) (V) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina og stuðning hans við málið sem er auðvitað gott að heyra um.

Hv. þingmaður beindi til mín í aðalatriðum tveimur spurningum. Sú fyrri var í bland sú hvaða skoðun ég hefði á málinu óháð þessari þingsályktunartillögu og hins vegar siðferðilegs eðlis, og auðvitað tengist þetta hvort tveggja.

Ég held að það sé skynsamlegt að bíða eftir niðurstöðu úr þeirri vinnu sem þingsályktunartillagan gerir ráð fyrir áður en ákvarðanir eru teknar. Ég held að það sé rétt. Hins vegar get ég alveg sagt að ég hef haft þá skoðun og trúi því, en vil gjarnan fá það betur staðfest, að á viðskiptalegum grundvelli, eigum við að segja, skili þessar veiðar ekki íslensku samfélagi ávinningi. Af þeim ástæðum tel ég fyrst og fremst rétt að hætta hvalveiðum.

Varðandi siðferðið í því að veiða hvali, þá er ég nú þannig gerður að ég held að það sé ekki siðferðilega rangt í sjálfu sér að veiða hval, það verður fyrst held ég siðferðilega rangt að gera það ef viðkomandi tegund er í útrýmingarhættu, eða sérstök ógn stafar af veiðum mannsins. En það eitt og sér að deyða hval tel ég ekki endilega vera siðferðilega rangt frekar en að við deyðum dýr okkur til matar (Forseti hringir.) í stórum stíl, ég sé ekki að það sé verra. Ég skal reyna að koma betur að þessu í seinna andsvari.