149. löggjafarþing — 36. fundur,  22. nóv. 2018.

endurmat á hvalveiðistefnu Íslands.

47. mál
[18:20]
Horfa

Guðmundur Andri Thorsson (Sf) (andsvar):

Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Ég tek það strax fram að ég hef ekki flokkað hv. þingmann í hópi einhverra sinna, hvort sem það eru hvalveiðisinnar eða andstæðingar, heldur geri mér grein fyrir því að hún vill einfaldlega safna upplýsingum og taka síðan afstöðu til málsins á grundvelli þeirra.

Grænland og Færeyjar. Ég styð baráttu Grænlendinga og Færeyinga fyrir lífsháttum sínum og fyrir varðveislu lífshátta sinna. Mér finnst það mjög mikilvægt að við varðveitum fjölbreytni í lífsháttum fólks yfirleitt og tek undir með hv. þingmanni í því að styðja Grænlendinga og Færeyinga til sem mestrar sjálfsstjórnar.

Mér finnst hins vegar að Hvalur hf. sé kannski svolítið eins og laumufarþegi í þeirri baráttu. Mér finnst að hvalveiðar Íslendingar geti með engu móti verið sambærilegar við veiðar og lífshætti fyrrgreindra þjóða, einfaldlega vegna þess, eins og ég taldi mig nú rekja í ræðu minni, að hvalveiðar hafa ekki verið stundaðar af Íslendingum, þær voru ekki stundaðar í 1000 ár af Íslendingum, heldur voru stundaðar af öðrum þjóðum. Hér er um að ræða nokkurs konar stóriðju og hálfgerðan verksmiðjurekstur sem með engu móti er hægt að tala um sem einhvers konar lífshætti náttúrufólks.