149. löggjafarþing — 37. fundur,  23. nóv. 2018.

veiðigjald.

144. mál
[10:33]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þingmanni fyrir yfirferðina á nefndarálitinu. Það eru nokkrar spurningar sem vakna við þá yfirferð. Ég ætla í fyrsta lagi að segja að mér finnst ekki vera mikil innstæða fyrir öllum fagurgalanum sem kemur fram í ræðu hjá hv. þingmanni. Það er að sjálfsögðu ljóst að þær breytingartillögur sem hér eru lagðar fram af hálfu meiri hlutans staðfesta að áfram er það stórútgerðin sem kemur hvað best út, sem er náttúrlega augljóslega vilji meiri hlutans. Það er ekki verið að hjálpa hinum stóra hópi sem kallast litlir og meðalstórir aðilar í útgerð. Það er verið að hjálpað þeim allra minnstu, sem er í sjálfu sér alveg ágætt.

En mig langar að spyrja hv. þingmann: Hver eru áhrifin á einstaka útgerðarflokka? Var reiknað út hver áhrifin á einstaka útgerðarflokka eru? Hækkar eða lækkar heildarinnheimta veiðigjalda við breytingarnar? Hefur meiri hlutinn látið meta hvaða áhrif þetta kann að hafa á fjárfestingar (Forseti hringir.) í greininni þar sem þær aðferðir eru nýttar? Og eins varðandi samþjöppun, mun það draga eða auka samþjöppun í greininni?