149. löggjafarþing — 37. fundur,  23. nóv. 2018.

veiðigjald.

144. mál
[11:25]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta atvinnuvn. (Sigurður Páll Jónsson) (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Eins og ég sagði áðan þá er ég sammála því að þetta er skref í rétta átt og það er komið til móts við útgerðarflokkana. Samt sem áður, eins og ég benti á og kom fram í ræðunni, þegar það þarf í svona kerfi að vera með, eins og ég hef sagt, plástra eins og frítekjumark og slíka afslætti, segir mér það bara strax og skýrir fyrir mér að þetta sé gallað kerfi. Það kemur ein niðurstaða en af því að hún kemur svo illa út fyrir einhverja útgerðarflokka þurfum við að veita þeim sérstakan afslátt. Þess vegna hefði ég viljað að þessu yrði skipt alveg eftir útgerðarflokkum. En eftir það sem hv. þingmaður nefndi (Forseti hringir.) með tölur frá Hagstofunni þá segja útreikningar að þetta muni ekki svo miklu, en ég er ekki svo sannfærður um það ef það væri skoðað með fleiri gleraugum.