149. löggjafarþing — 37. fundur,  23. nóv. 2018.

veiðigjald.

144. mál
[11:59]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hef í sjálfu sér ekki neinar áhyggjur af gleði manna yfir þessu. Þetta er bara spurning um það hvernig hægt er að framkvæma þá tillögu sem hér liggur fyrir. Það er í raun ein tillaga af þessum fjórum í breytingartillögunum sem snertir veiðigjaldið beint og maður hlýtur að kalla eftir hugsuninni og útfærslunni í því efni. Það er bara eðlilegt að kallað sé eftir því með hvaða hætti áhrifunum af þessu sé mætt.

Þá er það bara spurningin sem eftir liggur: Hafa hinum fjárhagslegu þáttum verið gerð skil við undirbúning þessa máls af hálfu stjórnarminnihlutans í nefndinni? Og ef svo er, ef eitthvert mat hefur verið lagt á fjárhagsleg áhrif af þessari tillögu á einstök fyrirtæki eða byggðirnar í landinu, væri mjög fróðlegt að heyra það.